Fara í efni

Þriðjudagsfyrirlestur um fatahönnun

Anita Hirlekar.
Anita Hirlekar.

Í dag, þriðjudaginn 9. febrúar, kl. 17 heldur Anita Hirlekar fatahönnuður fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Hugmyndaheimur fatahönnunar. Þar mun hún fjalla um sína eigin hönnun og ræða ýmsar hliðar fatahönnunar, m.a. hugmyndavinnu og þróunarferli. 

Anita Hirlekar útskrifaðist með BA-gráðu í fatahönnun með áherslu á prent árið 2012 og MA í fatahönnun með áherslu á textíl árið 2014 úr Central Saint Martins í London. Í náminu vann Anita hjá hjá Christian Dior Couture í París og Diane Von Furstenberg í New York. Hún hefur unnið sjálfstætt fyrir fyrirtæki eins og J Crew, Ashish Gupta og Diesel Bandaríkjunum og Bvlgari á Ítalíu. Hún vinnur einnig að eigin fatamerki og hefur sýnt á tískuvikum í London og París. Anita var tilnefnd til Íslensku hönnunarverðlaunanna 2015 fyrir masterslínu sína frá Central Saint Martins. 

Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð í Ketilhúsinu á þriðjudögum í vetur sem hófst sl. haust og lýkur fyrir páska.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.

Aðgangur á fyrirlesturinn í dag er ókeypis og eru allir velkomnir.