Fara í efni

Þriðjudagsfyrirlestur Tuma Magnússonar

Tumi Magnússon myndlistarmaður.
Tumi Magnússon myndlistarmaður.

Tumi Magnússon myndlistarmaður heldur fyrirlestur í Ketilhúsinu í dag, þriðjudaginn 5. febrúar kl. 17:00-17:30, undir yfirskriftinni Nokkur verk frá síðustu tuttugu árum. Tumi mun fjalla um bakgrunn og tilurð nokkurra verka sinna frá síðustu tveimur áratugum sem unnin voru með ólíkum miðlum.

Tumi Magnússon stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og AKI í Enschede, Hollandi. Í upphafi ferilsins notaði hann fundna hluti, ljósmyndir, teikningar og 8 mm kvikmyndir í verk sín. Þetta leiddi hann til þess að mála verk í hlutbundnum stíl í byrjun 9. áratugarins. Á tíunda áratugnum þróaðist vinnan meira í átt að hugmyndalegu málverki og málverkainnsetningum heldur en málverki í hefðbundnum skilningi. Í lok áratugarins var vinna með tíma og rými orðin eitt aðalviðfangsefni verkanna. Tumi hefur haldið þessum rannsóknum áfram eftir aldamótin, í formi innsetninga, ljósmyndaverka, og vídeó-/hljóðinnsetninga þar sem mynd og/eða hljóð er sett fram sem rýmisviðburður. 

Þriðjudagsfyrirlestrarnir í Ketilhúsinu eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins.

Ókeypis er á fyrirlesturinn og eru allir velkomnir.