Fara í efni

Þriðjudagsfyrirlestur Þórhildar verður í VMA

Þórhildur Örvarsdóttir söngkona.
Þórhildur Örvarsdóttir söngkona.

Í dag, þriðjudaginn 10. nóvember, kl. 17 verður Þórhildur Örvarsdóttir söngkona með fyrirlestur undir yfirskriftinni Er nokkuð mennskara en röddin? Rétt er að undirstrika að fyrirlesturinn verður að þessu sinni haldinn hér í VMA í stofu M01 en ekki í Ketilhúsinu þar sem þriðjudagsfyrirlestrarnir eru jafnan haldnir.

Í fyrirlestrinum mun Þórhildur fjalla um feril sinn í erlendri kvikmyndatónlist síðastliðin 15 ár og segja frá verkum sínum í máli, hljóði og myndum. Hún mun einnig fjalla um vinnuaðferðir og lýsa ferlinu frá undirbúningi tónlistar að fullgerðri bíómynd þar sem tón- og myndmál rennur í eina heild. Að lokum mun hún útskýra notkun mannsraddar í kvikmyndum og velta upp spurningunni hvort nokkuð sé mennskara en röddin? 

Þórhildur Örvarsdóttir er fædd og uppalin á Akureyri og hóf snemma feril sem söngkona. Hún lærði söng við Tónslistarskólann á Akureyri en útskrifaðist frá Söngskólanum í Reykjavík árið 2000 og frá Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn vorið 2008. Hún hefur komið víða við í tónlist og sungið óperu- og söngleikjahlutverk, popp, þjóðlagadjass og við kirkjulegar athafnir. Þórhildur hefur sungið inn á fjölmargar erlendar kvikmyndir t.d. The Eagle, Mortal Instruments, 300: Rise of an Empire og Man of Steel auk þess að starfa með fjölþjóðlegu hljómsveitinni Torrek. Hún hefur kennt söng og raddþjálfun í Listaháskóla Íslands, Kvikmyndaskóla Íslands, Tónlistarskóla FÍH, Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar og Borgarleikhúsinu. Þórhildur býr á Akureyri og starfar sem söngkennari við Tónlistarskólann á Akureyri og sinnir auk þess ýmsum verkefnum í söng- og raddþjálfun. 

Fyrirlesturinn er sjöundi í röð þriðjudagsfyrirlestra í vetur.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.

Aðgangur á fyrirlesturinn í dag er ókeypis.