Fara í efni

Þriðjudagsfyrirlestur Ragnheiðar Hörpu Leifsdóttur

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir.
Ragnheiður Harpa Leifsdóttir.

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, sviðshöfundur, heldur þriðjudagsfyrirlestur í dag, 11. október, kl. 17:00-17:40 í Ketilhúsinu á Akureyri. Yfirskrift fyrirlestursins er „Þetta er allt eins og klukknahljómur úr djúpinu“. Í fyrirlestrinum fjallar hún um tilurð verka sinna og veitir innsýn í starfsaðferðir sínar sem sviðshöfundur og lýsir hugmyndafræðinni að baki þeim. Einnig mun hún ræða um sína áhrifavalda og það sem henni þykir nauðsynlegt í sköpun. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Ragnheiður Harpa lauk B.A. námi úr Listaháskóla Íslands 2011 og lagði stund á sambærilegt nám í University of Dartington 2010. Hún hefur starfað á ýmsum sviðum leikhúss og myndlistar, samið, sett upp og tekið þátt í fjölda gjörninga, leiksýninga og innsetninga bæði á Íslandi og erlendis. Af verkum hennar má nefna Söng kranans, sem tilnefnt var til Grímunnar 2016, Skínöldu, samstöðugjörning með ljósi fyrir UN Women, og Flugrákir: „… og veröldin var sungin fram“, lokaverk Listahátíðar 2014. Ragnheiður Harpa stundar nú framhaldsnám í ritlist við Háskóla Íslands. Hún hefur skrifað útvarpsleikrit, gefið út smásögur og vinnur nú að ljóðahandriti sem verður frumflutt á ljóðahátíð í Istanbúl í haust. 

Fyrirlesturinn er þriðji í röð fyrirlestra á þriðjudögum í vetur. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri.