Fara í efni

Þriðjudagsfyrirlestri streymt vegna Covid

Lilý Erla Adamsdóttir.
Lilý Erla Adamsdóttir.

Í dag, þriðjudaginn 27. október, kl. 17-17.40 heldur Lilý Erla Adamsdóttir, myndlistarmaður, fyrirlestur í röð þriðjudagsfyrirlestra undir yfirskriftinni Dansandi útsaumur, loðin málverk og munsturveggir. Vegna fjöldatakmarkana og smitvarnareglna verður fyrirlesturinn ekki opinn gestum, eins og venja er til, heldur verður honum eingöngu streymt á Facebooksíðu Listasafnsins á Akureyri.

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri.

Í fyrirlestrinum í dag mun Lilý Erla ræða um feril sinn sem myndlistarmaður og þá vinnu sem býr að baki. Í kynningu á fyrirlestrinum segir að myndlist Lilýjar einkennist af stöðugu samtali við efnið, þar sem eitt leiði af öðru. Undanfarið hafi hún nýtt sér eiginleika tufttækninnar til skoðunar á þræðinum og sjónrænna áhrifa hans, þegar komi að samspili lita og efniseiginleika. Lilý tali ýmist um verkin sín sem loðin málverk eða dansandi útsaum.

Lilý Erla Adamsdóttir er með BA gráðu í myndlist frá LHÍ árið 2011 og MA gráðu í listrænum textíl lauk hún frá Textilhögskolan í Borås í Svíþjóð árið 2017.