Fara í efni

Þolinmæði Þóreyjar Lísu

Þórey Lísa Þórisdóttir við málverkið sitt.
Þórey Lísa Þórisdóttir við málverkið sitt.

Þolinmæði er heiti á verki sem Þórey Lísa Þórisdóttir vann í áfanganum MYL 504 á haustönn. Þórey Lísa mun útskrifast í maí nk. af bæði myndlistar- og textílkjörsviði listnámsbrautar.

„Ég tek textílkjörsviðið vegna þess að ég ætla mér að vera fatahönnuður í framtíðinni og það hjálpar mér varðandi teikninguna að taka myndlistarkjörsviðið líka,“ segir Þórey Lísa. „Það er langt síðan ég ákvað að fara í fatahönnun, mér finnst það einfaldlega mjög spennandi vettvangur. Ég hef ekki ákveðið hvort ég fer í frekara nám strax næsta vetur eða tek mér eins árs hlé frá námi. En ég horfi til þess að fara í þriggja ára nám í fatahönnun í háskóla í Bournemouth í Englandi. Mér líst betur á að fara þangað heldur en í skóla í London,“ segir Þórey Lísa og bætir við að hún hafi verið ánægð með námið í VMA.

Sem fyrr segir nefnist verk Þóreyjar Lísu Þolinmæði. Upp úr höfði konunnar á  myndinni eru horn sem vísa til þess, að sögn Þóreyjar Lísu, að allir geti orðið vondir jafnframt því sem þolinmæðin láti undan síga.