Fara í efni

Þjálfun í samspili sjónskynjunar og hreyfingar handa

Einbeiting í módelteikningu.
Einbeiting í módelteikningu.

Módelteikning er hluti af því sem nemendur á listnáms- og hönnunarbraut fara í gegnum og er farið dýpra í hana á myndlistarkjörsviði. Þar taka nemendur tvo áfanga í módelteikningu. Áfanginn heitir raunar módelteikning og líkamsbygging.
Þegar litið var inn í kennslustund í módelteikningu í gær voru nemendur í framhaldsáfanga í módelteikningu og líkamsbyggingu undir handleiðslu Bjargar Eiríksdóttur að teikna lifandi módel, þ.e. færa sjónskynjunina á blað með teikniáhöldum. Þetta var sem sagt framhaldsáfangi í módelteikningu, sem Björg segir að sé mikilvægur þáttur í námi myndlistarnemenda. Þrír einstaklingar hafa í vetur tekið að sér að koma til skiptis í skólann og sitja fyrir í módelteikningu. Auk lifandi módela spreyta nemendur sig á því að teikna einhverja dauða hluti, bæði inni í skólastofunni og einnig er farið út á örkina og nemendur þjálfa sig í því að teikna hluti í umhverfinu.

Í sem stystu máli byggir módelteikningin, eins og nemendur voru að vinna að í tímanum í gær, á því að umbreyta þrívíðu formi mannslíkamans í tvívíða teikningu með samspili sjónskynjunar og hreyfingu handa. Skynjun hvers og eins er misjöfn og því verða teikningarnar að sjálfsögðu ólíkar. En þetta er mikilsverð þjálfun í öguðum vinnubrögðum.

Það var gaman að fylgjast með því hversu ólíkar leiðir nemendur fóru í nálgun sinni á viðfangsefnið. Eins og vera ber, því engir tveir eru eins. Og eftir að fyrirsætan hafði lokið sinni setu í kennslustofunni báru nemendur og Björg kennari saman bækur sínar og veltu vöngum yfir mismunandi nálgun nemendanna.