Fara í efni

Þjálfa réttu handbrögðin í úrbeiningu fyrir sveinspróf

Nemendur spreyta sig á úrbeiningu lambalæra.
Nemendur spreyta sig á úrbeiningu lambalæra.

Núna á vorönn hefur hópur nemenda verið í þriðja og síðasta bekk í matreiðslu og undirbúa sig kappsamlega fyrir sveinspróf í matreiðslu sem verður 26. og 27. maí nk. í VMA. Vegna samkomubannsins frá og með 16. mars sl. varð hlé á námi hinna verðandi matreiðslumanna en frá og með 4. maí sl. komu þeir aftur í skólann í verklega þjálfun og nú er allt kapp lagt á að vinna upp þann tíma sem tapaðist í samkomubanninu og undirbúa nemendur sem allra best fyrir sveinsprófið.

Einn af þeim þáttum sem nemendur eru prófaðir í sveinsprófi er úrbeining. Í vetur var þeim boðið til kynningar á úrbeiningu hjá kjötvinnslufyrirtækinu Kjarnafæði, sem hefur stutt dyggilega við starfsemi matvælabrautar VMA, og í liðinni viku færði Kjarnafæði deildinni að gjöf lambalæri til þess að nemendur gætu þjálfað sig í að úrbeina þau. Ekki nóg með það, Rúnar Ingi Guðjónsson, lærður kjötiðnaðarmaður og gæðafulltrúi Kjarnafæði, kom í skólann og kenndi nemendum réttu handbrögðin við úrbeininguna.

Ari Hallgrímsson, brautarstjóri matvælabrautar, tók þessar myndir í úrbeiningarkennslustund Rúnars Inga.