Fara í efni

Þetta lærist ekki með appi í símanum

Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðngreina.
Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðngreina.
„Nemendur læra mest á því að takast á við og leysa raunhæf verkefni, að reka sig á og finna bestu lausnirnar. Þetta lærist ekki með appi í tölvunni eða símanum eða að hlaða niður eða „dánlóda“ af netinu,“ segir Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðngreina í VMA.

„Nemendur læra mest á því að takast á við og leysa raunhæf verkefni, að reka sig á og finna bestu lausnirnar. Þetta lærist ekki með appi í tölvunni eða símanum eða að hlaða niður eða „dánlóda“ af netinu,“ segir Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðngreina í VMA.

Hörður er borinn og barnfæddur Akureyringur. Hann ákvað ungur að árum að fara í vélfræði og tók það sem hann gat af því námi á þeim tíma hér norðan heiða. Síðan lá leið Harðar á sjóinn þar sem hann var vélstjóri á ýmsum bátum í átta ár, lengstaf var róið frá Árskógsströnd. „Síðan fór ég í eitt ár til Danmerkur og vann þar í vélsmiðju sem smíðaði vinnslukerfi fyrir frystihús og togara úr ryðfríu stáli. Ég starfaði einnig í verksmiðju sem smíðaði Scandia-barnavagna. Þegar ég kom heim ákvað ég að klára Vélskólann. Ég byrjaði hér í Verkmenntaskólanum og tók þrjár annir og kláraði gamla þriðja stigið í vélstjórn. Fór síðan suður, tók þrjár annir þar og lauk fjórða stiginu árið 1994. Ég starfaði í eitt ár í stálsmiðju en tók vélvirkjasamninginn í Kælismiðjunni Frosti. Elías Þorsteinsson, sem kennir hér í vélstjórninni, var meistarinn minn hjá Frosti. Þar starfaði ég í um átta ár. Reyndar má segja að ég hafi ekki enn látið af störfum hjá Frosti því ég hef unnið hjá þeim í nokkrar vikur á hverju sumri, svona rétt til þess að halda mér við í faginu. Ég lít á það sem mína endurmenntun.“

Í nokkurn tíma hafði Hörður haft áhuga á því að spreyta sig á kennslu í VMA. „Ég var að vinna í skipi á Húsavík þegar Gulli Björns, sem hér var brautarstjóri lengi, hringdi í mig og sagði að hann vantaði kennara strax, hvort ég væri ekki til í að prófa. Þetta var rétt fyrir áramót fyrir tíu árum. Ég sagði Gulla að ég skyldi ræða þetta við mína yfirmenn hjá Frosti. Málin æxluðust síðan þannig að ég tók kennsluna að mér, var í raun seldur út í þessa vinnu frá Frosti fyrstu tvö árin. Mér líkaði þetta strax það vel að ég ákvað að skella mér í nám í Háskólanum á Akureyri með vinnu og ná mér í kennsluréttindin. Ég hef sem sagt verið hér í um tíu ár og ég tók síðan við brautarstjórninni þegar Gulli Björns hætti fyrir einu og hálfu ári. Þetta er því fjórða önnin sem ég er brautarstjóri málmiðngreina.“

Hörður segist kunna afar vel við þetta starf. Nemendahóparnir séu auðvitað misjafnir, margir nemendur séu fullir áhuga á viðfangsefninu en aðrir ekki. „Krakkar sem koma hingað í grunndeildina eftir grunnskóla hafa flestir litla sem enga reynslu á þessu sviði, sem vonlegt er, og almennt má segja að verkkunnáttu ungs fólks hafi hrakað. Margir þessara krakka hafa ekki haft tækifæri til þess að takast á við hin ýmsu verk. Síðan má ekki gleyma því að tölvan sogar unga fólkið til sín sem er að mínu mati ekki nógu góð þróun. Þetta eru breyttir tímar frá því ég lærði hér á sínum tíma. Það eru helst sveitakrakkarnir sem hafa unnið hin ýmsu verk og kynnst notkun verkfæra af ýmsum toga.“

Verknám hefur ekki farið varhluta af niðurskurði síðustu ár. „Ráðamenn koma reglulega í heimsókn til okkar og dásama það sem fyrir augu ber og segja að hefja þurfi verknám til vegs og virðingar. Þessir sömu ráðamenn fara síðan og skera niður fjárframlög til verknáms. Vegna þessa mikla niðurskurðar ár eftir ár er það staðreynd að nemendur fá grátlegan lítinn tíma til þess að læra verklega þáttinn, það er einfaldlega mjög erfitt fyrir okkur sem erum að kenna að koma verkkunnáttunni til krakkanna á þeim stutta tíma sem okkur er skammtaður til þess. Þess vegna þurfa nemendur í auknum mæli að afla sér þessarar reynslu „út á örkinni“. Ég var í fyrsta hópnum þegar þessi námsbraut var stofnuð fyrir þrjátíu árum og þá voru nemendur hér myrkranna á milli að vinna að ýmsum verkefnum og fengu þannig mun meiri tíma til þess að þjálfa sig en við getum veitt nemendum okkar í dag vegna niðurskurðar. Við vildum gjarnan geta boðið nemendum meiri tíma til þess að vinna að stærri verkefnum og þjálfa þá þannig betur.“

Hörður segir að þegar horft sé til framtíðar í menntun í málmiðngreinum megi aldrei gleyma grunninum. „Einn gamall kennari minn sagði við mig um daginn: „Ef þú vilt vera góður í einhverju, byrjaðu þá á því að læra gömlu aðferðina.“ Það er margt til í þessu. Grunnurinn þarf alltaf að vera traustur og góður. Það er mjög erfitt að byggja ofan á lélegan grunn. Sumir halda að í þessari grein eins og ýmsum öðrum gerist allt í tölvustýrðum vélum en það er mikill misskilningur. Það þarf gamlar vélar til þess að smíða nýjar. Við erum hér með grunndeild málmiðna og síðan kennum við stálsmíði að fullu og útskrifum stálsmiði. Til þess hins vegar að klára rennismíði þurfa nemendur að fara suður til Reykjavíkur og nokkra áfanga í blikksmíði þarf líka að taka fyrir sunnan.“

Hörður segir gríðarlega mikilvægt fyrir atvinnulífið að boðið sé upp á málmiðnnám í VMA. „Og reyndar er það svo að við útskrifum ekki nógu marga til þess að anna eftirspurninni, þrátt fyrir að aðsókn hafi verið góð að grunndeild málmiðna hjá okkur undanfarin ár."