Fara í efni

Þetta kemur öllum við!

Hekla Sólbjörg með hljóðnemann í Gryfjunni.
Hekla Sólbjörg með hljóðnemann í Gryfjunni.

„Þetta kemur öllum við og mér finnst að allir framhaldsskólanemar ættu að læra eitthvað um þessi mál,“ segir Hekla Sólbjörg Gunnarsdóttir, sem ásamt samnemendum sínum, Karli Jóhanni Sveinssyni, Maju Fiedler og Kristjönu Diljá Wium Sveinsdóttur, kynntu starfsemi Amnesty International í Gryfjunni í löngu frímínútunum í gær.

Öll eru þau í félagsfræðiáfanga á þriðja þrepi á þessari önn hjá Valgerði Dögg Oddudóttur Jónsdóttur og Þorsteini Kruger þar sem fjallað er um mannréttindi. Nemendur voru með opna kynningu í M01 þar sem mættu um sextíu manns og einnig var áðurnefnd kynning í Gryfjunni á þeim verkefnum sem Amnesty International vinnur nú að. 

Sigurbjörg M. Þorsteinsdóttir er ein af nemendunum í þessum félagsfræðiáfanga. Hún tók saman eftirfarandi:

Við nemendur í Félagsfræðiáfanganum FÉLA3ML05 viljum beita okkur fyrir réttlæti, ekki bara lesa og læra um mannréttindi heldur að gera eitthvað í málunum. Við erum að taka þátt í herferð með Amnesty International. Herferðin kallast “Þitt nafn bjargar lífi” og snýst hún um að fá eins margar undirskriftir og mögulegt er til að bjarga einstaklingum sem brotið hefur verið á. Það eru 10 ungir einstaklingar sem eru í brennidepli þetta árið og þeir þurfa hjálp okkar. Við getum lagt undirskrift okkar til, nafnið okkar getur breytt lífi þessa fólks.

Hér má lesa stuttar lýsingar á málefnum þessara 10 ungu einstaklinga:

Yasaman Aryani storkaði lögum um höfuðslæður í Íran með ögrandi gjörningi. Yasaman og móðir hennar gengu með hárið óhulið um lestarvagn einungis ætlaðan konum og dreifðu hvítum blómum meðal farþega. Yasaman var dæmd í 16 ára fangelsi í kjölfarið.

Sarah Mardini og Seán Binder eiga yfir höfði sér 25 ára fangelsisdóm fyrir að bjarga flóttafólki við strendur Grikklands. Þau eru sökuð um njósnir, smygl á fólki og að tilheyra glæpasamtökum.

Marinel Sumook Ubaldo lifði af fellibylinn Yolanda sem reið yfir Filipseyjar í nóvember árið 2013. Marinel, fjölskylda hennar og þúsundir annarra sem misstu heimili sín í fellibylnum þurfa nægilegt fæði, vatn, húsnæði, rafmagn og salernisstöðu.

Magai Matiop Ngong var 15 ára gagnfræðaskólanemi þegar hann var dæmdur til hengingar. Hann fékk ekki lögfræðing sér til aðstoðar fyrr en eftir réttarhöldin. Hann heldur í vonina um áfrýjun dauðadómsins og að halda skólagöngu sinni áfram.

José Adrián var á heimleið úr skólanum þegar lögreglan réðst á hann og handtók. Hann var aðeins 14 ára. Lögregla lét José Ádrián hanga í handjárnum á lögreglustöðinni og barði hann. Hann var fyrst leystur úr haldi eftir að foreldrar hans höfðu verið þvingaðir til að borga sekt.

Íbúar Grassy Narrows-samfélagsins urðu illa fyrir barðinu á kvikasilfurseitrun eftir að stjórnvöld á 7. áratugnum leyfðu verksmiðju að losa 10 tonn af úrgangi út í ána á svæðinu. Skaðlegra áhrifa þess á heilsu íbúanna gætir enn í dag.

Ibrahim Ezz El-din rannsakar mannréttindabrot í Kaíró í Egyptalandi. Fjórir óeinkennisklæddir lögreglumenn umkringdu hann og handtóku í júní 2019. Fjölskylda Ibrahims hefur engar upplýsingar fengið um hvað varð um hann.

Nasu Abdulaziz berst fyrir rétti sínum til heimilis í Nígeríu. Vopnaðir menn með jarðýtur mættu fyrirvaralaust inn í hverfið hans í Lagos árið 2017. Hús voru brennd og rifin, byssuskotum hleypt af og lífsviðurværi íbúanna lagt í rúst.

Yiliyasijiang Reheman og kona hans Mairinisha Abuduaini áttu von á sínu öðru barni þegar hann var numinn á brott af lögregluþjónum. Mairinisha telur að eiginmaður hennar sé á meðal milljón múslima sem er haldið í leynilegum búðum í Kína.

Emil Ostrovko var 17 ára gamall þegar hann var dæmdur í tíu ára fangelsi í Hvíta- Rússlandi. Hann var handtekinn við sendilsstörf árið 2018 en vinnuveitandi hans hafði falið honum að afhenda pakka sem að hans sögn innihélt aðeins löglega reyktóbaksblöndu.

Við vonum að sem flestir taki þátt og minnum á þegar nemendur taka þátt að muna að merkja við Verkmenntaskólann á Akureyri því við erum í keppni við aðra framhaldsskóla á landinu.

Þitt nafn bjargar lífi.

-----

Hekla Sólbjörg hafði orð fyrir fjórmenningunum  á kynningunni í Gryfjunni og Maja Fiedler, sem er skiptinemi frá Þýskalandi, kynnti málið á ensku. „Það hefur verið mjög upplýsandi að læra um þessi mál og það kemur í ljós að það er ekki til það land í heiminum sem ekki er á einhvern hátt brotið á mannréttindum fólks. Við þurfum því stöðugt að vera á varðbergi og sofna aldrei á verðinum,“ segir Hekla Sólbjörg.

Að kynningunni lokinni voru nemendur hvattir til að taka upp símana sína, fara inn á heimasíðu Amnesty og skrá nöfn sín og leggja þannig lóð sín á vogarskálarnar til þess að þrýsta á stjórnvöld út um allan heim að láta samviskufanga lausa úr fangelsum. 

-----

Auk félagsfræðiáfangans var fjallað um þetta sama mál í tíma í menningarlæsi og skrifuðu nemendur bréf til nokkurra framangreindra samviskufanga. Valgerður Dögg kennari hvetur nemendur til þess að skrifa fleiri slík bréf og segir velkomið að þeir setji þau í pósthólf sitt í skólanum.