Fara í efni

Þakkir til nemenda og starfsfólks fyrir þrautseigju og dugnað eru mér efst í huga

Benedikt Barðason, skólameistari VMA.
Benedikt Barðason, skólameistari VMA.

Frá páskum hefur kennsla í VMA haldið áfram í fjarnámi með sama sniði og frá því að samkomubann var sett á mánudaginn 16. mars sl. Fyrir liggur að þessar reglur verða rýmkaðar á miðnætti 4. maí nk. eins og reglugerð heilbrigðisráðherra, sem var birt í Stjórnartíðindum sl. þriðjudag, kveður á um. Opnað er á kennslu í framhaldsskólum en þó með þeim takmörkunum að tryggt skuli að ekki verði fleiri en 50 manns inni í sama rými og eftir sem áður „skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.“

Stjórnendur og kennarar VMA hafa unnið að því undanfarna daga að útfæra síðustu vikur vorannar. Síðasti kennsludagur vorannar verður samkv. áður útgefnu skóladagatali föstudaginn 8. maí. Eins og kom fram í frétt hér á heimasíðunni sl. miðvikudag liggur fyrir að engin skrifleg próf verða í húsakynnum VMA við lok annar og hefur prófum verið fækkað umtalsvert frá upphaflegri próftöflu. Í nokkrum áföngum verða rafræn próf á próftökutíma – samkvæmt nýrri próftöflu – en öðrum verður lokið með símati.

Ákveðnir forgangshópar í verklegum greinum verða boðaðir í skólann frá og með 4. maí og þeim kenndir ýmsir verklegir þættir sem upp á vantar áður en þeir ljúka sínu verklega námi með sveinsprófi. Lista yfir þá áfanga má sjá hér.

Benedikt Barðason skólameistari segir það hafa verið erfiða ákvörðun hvaða nemendur mættu koma í skólann. Niðurstaðan hafi verið sú að í forgangi væru brautskráningarnemendur í verklegum greinum til þess að ljúka nauðsynlegri verklegri þjálfun. Þar á eftir hafi verið valdir áfangar þar sem útilokað væri að nemendur gætu unnið nokkuð heima.

Benedikt segir að þótt rýmkað hafi verið til með hámarksfjölda í rými – þ.e. 50 manns – og heimilt sé að fá nemendur aftur inn í skólann – þá sé það skylda skólans að tryggja öryggi nemenda og starfsmanna eins og kostur er. Því verði mikl áhersla lögð á smitvarnir þá daga sem nemendur komi í skólann, að þeir þvoi og spritti í ríkum mæli og haldi tveggja metra fjarlægð.

Skólanum verður skipt upp í rými fyrir verklegu kennsluna. Ekkert sameiginlegt rými, eins og t.d. Gryfjan, verður opið þessa daga og því ekki boðið upp á mat í mötuneyti. Nemendur í viðkomandi verknámsrýmum ganga beint inn í þau og verður nemendafjöldi í hverju rými takmarkaður.

Við skipulag á þessu námi í VMA þessa síðustu daga annarinnar hafa brautarstjórar og áfangastjórar gegnt lykilhlutverki og vill Benedikt koma á framfæri sérstöku þakklæti til þeirra.

Ekki er ljóst með þann fjölda daga sem verknámsnemendur verða í skólanum frá og með 4. maí. „Það er mjög misjafnt eftir námsbrautum og fer eftir því hversu mikið var eftir af verklegri kennslu þegar samkomubannið var sett á,“ segir Benedikt.

Krefjandi skólastarf í samkomubanni

Það hefur síður en svo verið auðvelt að halda úti skólastarfi frá því að samkomubann var sett á 16. mars sl.  enda námsbrautirnar ólíkar og aðstæður nemenda einnig afar mismunandi til þess að stunda fjarnám. Benedikt skólameistari segir að sannarlega hafi þetta ekki verið auðveldur tími, ekki síst fyrir nemendur. Þeir hafi þó upp til hópa staðið sig með miklum ágætum og eigi mikið hrós skilið fyrir þrautseigju og úthald. Einnig vill Benedikt hrósa og koma á framfæri þökkum til samstarfsfólks í VMA fyrir sveigjanleika, lipurð og skilning og ekki síst fyrir það afrek að halda úti skólastarfi við þessar erfiðu og krefjandi aðstæður.

Benedikt segir að kennarar hafi fylgst náið með virkni nemenda í fjarnámi. Námsráðgjafar og sviðsstjórar hafa verið í sambandi við þá nemendur sem hafa ekki sýnt virkni í fjarnáminu. Einnig hafa umsjónarkennarar nemenda á fyrsta ári verið í sambandi við sína nemendur. „Ég veit að námsráðgjafar hafa verið í sambandi við marga nemendur og einnig hafa margir þeir leitað til sálfræðings skólans,“ segir Benedikt.

Náið samstarf framhaldsskólanna

Benedikt segir að stjórnendur framhaldsskólanna og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi verið í nánu samstarfi við skipulagninu á lokum vorannar. Einnig hafi stjórnendur starfsnámsskólanna stillt saman strengi. Til dæmis segist Benedikt hafa heyrt reglulega í stjórnendum Tækniskólans og Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. Þessir skólar hafi farið mjög svipaðar leiðir og VMA í fjarnámi og prófum hafi verið fækkað og vægi símats að sama skapi aukið.

Benedikt segir að aðstæður skólanna séu svolítið mismunandi. Einn af takmarkandi þáttum sé fjöldi nemenda á Heimavist MA og VMA, þar mega að hámarki vera 50 nemendur eftir 4. maí. Benedikt segist afar þakklátur Jóni Má skólameistara og MA fyrir skilning og sveigjanleika sem geri verknámsnemum í VMA sem eru á heimavist kleift að ljúka sínu námi.

Brautskráning á réttum tíma

Gengið er út frá því að skólanum ljúki í vor eins og upphaflega var áætlað. Brautskráning var dagsett á skóladagatali laugardaginn 23. maí. „Um brautskráninguna hefur ekkert verið ákveðið að öðru leyti en því að það er í það minnsta ljóst að hún verður ekki með sama sniði og verið hefur. Eftir sem áður stefnum við að því að nemendur fái brautskráningarskírteini sín á réttum tíma en í einhverjum verknámsgreinum verður mögulega ekki öllu lokið fyrir 23. maí. En almennt stefnum við að því að brautskrá sem flesta nemendur laugardaginn 23. maí. Með hvaða hætti það verður gert kemur síðar í ljós. En það sem mér er núna efst í huga er að okkur auðnist að ljúka þessu skólaári á eins farsælan hátt og unnt er. Við þurfum öll að gæta fyllstu varúðar til þess að við komumst öll, bæði nemendur og starfsmenn skólans, heil út í sumarið og getum vonandi horft til skólastarfs í haust án tveggja metra aðgreiningar,“ segir Benedikt Barðason.