Fara í efni

Það var í þá daga ...

Siggi Gunnars í viðtali í kynningarblaði VMA 2011.
Siggi Gunnars í viðtali í kynningarblaði VMA 2011.

Á þeim tæpu fjörutíu árum sem VMA hefur starfað hefur eitt og annað verið gefið út á prenti um skólann og skólalífið. Á síðari árum hefur skólablað ekki náð að festa sig í sessi en það var gefið út hér á árum áður undir nafninu Jón Krukkur og síðar hét það Mjölnir. Einu sinni hét það Týran og á síðasta áratug síðustu aldar komu út nokkur tölublöð af blaðinu Ómaginn, sem utanlandsfarar í þriðja bekk gáfu þá út til þess að létta undir með fjármögnun utanlandsferðar. Einnig kom út blaðið Námsviljinn og Æsifréttablaðið leit líka dagsins ljós.

Auk skólablaða með ýmsum nöfnum hafa verið gefin út nokkur kynningarblöð um skólann og þar kennir ýmissa grasa. Í einu slíku má sjá viðtöl við tvo af þáverandi nemendum - nú kennurum við skólann, Borghildi Ínu og Braga Óskarsson og í öðru slíku kynningarblaði frá 2011 er m.a. viðtal við Sigurð Þorra Gunnarsson, Sigga Gunnars, sem nú stendur í ströngu í Júróvisjón sem einn af þremur kynnum keppninnar í ár. Eins og sjá má á meðf. mynd var Siggi bærilega vel hárprúður í þá daga - en svona týnist tíminn!

Það er einnig gaman að sjá í þessum gömlu blöðum ýmsar auglýsingar sem segja svo mikið um tíðarandann og hversu miklar breytingar hafa orðið. Meðal annars voru þarna auglýsingar frá Bókabúð Jónasar og Bókabúðinni Eddu, sem báðar eru horfnar, og veitingastöðunum Bing Dao og Uppanum, sem var aðal pizzastaðurinn á Akureyri í eina tíð. Hér gefur að líta eitt og annað sem minnir á liðna tíð!

Og eins og vera ber var nóg af léttum framhaldsskólahúmor í þá daga - það má sjá á síðum þessara gömu skólablaða. Í skólablaðinu Jóni Krukki frá 1989 var áskrifendagetraun um Hálfdán kennara Örnólfsson sem var uppnefndur á ensku Halfdown.