Fara í efni

Textílnemar heimsóttu Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi

Nemendurnir fimm og Borghildur Ína kennari.
Nemendurnir fimm og Borghildur Ína kennari.

FabLab margmiðlunartæknin opnar nýjar víddir á svo mörgum sviðum. Þessi tækni hefur tengst á ýmsan hátt inn í verkefni í ólíkum námsgreinum. Ein þeirra er textíl, sem er önnur tveggja brauta sem nemendur á listnáms- og hönnunarbraut geta valið.

Núna á vorönn hafa nemendur í textíláfanga þar sem yfirborðshönun er þemað – bútasaumur, útsaumur og vélútsaumur – fetað sig smám saman inn í þessa tækni með kennaranum sínum, Borghildi Ínu Sölvadóttur. Þessi stafræna tækni gefur alveg nýja möguleika og hana vildi Ína kynna vel fyrir nemendum með því að heimsækja Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi, en þar er sérstök deild, TextílLab, sem hefur yfir að ráða stafrænum tækjabúnaði sem tengist textílvinnslu, t.d. vefnaði, prjóni, þæfingu og útsaumi. Í Textílmiðstöðinni er stafrænn vefstóll, prjónavél, útsaumsvél, nálaþæfingarvél, leiserskeri, vínylskeri og vínylprentari.  Í FabLab Akureyri, sem er til húsa í VMA, er m.a. leiserskeri og minni útgáfa af útsaumsvél og því var heimsókn nemendanna til Blönduóss mikilvæg til þess að öðlast betri skilning og færni á því að nýta þann búnað sem er til staðar í FabLab Akureyri. Heimsóknin, sem var sl. föstudag, kveikti í nemendunum fimm, sem fóru í ferðina með Borghildi Ínu, að nýta þá tækni sem til staðar er í FabLab Akureyri til þess að vinna með í lokaverkefnum þeirra þegar þar að kemur, en þeir eru núna á vordögum að ljúka öðru ári í námi sínu.

Til þess að nýta tímann sem best í heimsókninni til Blönduóss voru nemendurnir búnir að vinna mikla forritunarvinnu, sem jafnan tekur lengsta tíma. Skjölin voru vistuð á lykla sem var stungið í tölvurnar í Textílmiðstöðinni og síðan var „keyrt“ út úr þeim. Afraksturinn var mjög skemmtilegur eins og hér má sjá.

Borghildur Ína kennari segir ánægjulegt að geta prófað sig áfram á nýjum og spennandi slóðum í textílkennslunni og hún hafi því verið að innleiða FabLab tæknina inn í hina ýmsu áfanga sem hún sé að kenna í listnáminu. Nemendur hafi áður lært grunnatriðin í notkun algengustu forrita í margmiðlunaráfanga – t.d. Photoshop og Illustrator – og sú þekking nýtist vel til þess að taka næstu skref í notkun tölvutækninnar í textílnum í FabLab.

Eins og vera ber hefur verið lítið um námsferðir nemenda í textíl og á öðrum brautum út fyrir bæjarmörk Akureyrar undanfarin tvö skólaár vegna covid og því segir Ína að það hafi verið kærkomið að geta fengið tækifæri til þess að kynnast þeirri stafrænu tækni sem Textílmiðstöðin býr yfir. Vonandi geti slík ferð með textílnemendur orðið árleg.

Ína og nemendurnir fimm sem fóru í ferðina til Blönduóss vilja koma á framfæri kæru þakklæti til Textílmiðstöðvarinnar fyrir móttökurnar. Sérstakar þakkir til Margrétar Katrínar Guttormsdóttur, sem hefur umsjón með TextílLab-smiðju miðstöðvarinnar, fyrir hjálpina, en hún er textíl- og vöruhönnuður, með BA-próf í vöruhönnun frá Listaháskólanum og diplómu í textíl frá Myndlistarskólanum í Reykjavík.