Fara í efni

Textíl í þriðjudagsfyrirlestri

Margrét Katrín Guttormsdóttir.
Margrét Katrín Guttormsdóttir.

Í dag, þriðjudaginn 29. mars kl. 17-17.40, heldur Margrét Katrín Guttormsdóttir vöruhönnuður þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Tækni í nýsköpun textíls.

Í fyrirlestrinum mun Margrét segja frá textílnámi sínu við Myndlistaskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, þaðan sem hún brautskrifaðist úr vöruhönnun 2021. Einnig segir Margrét frá starfi sínu sem verkefnastjóri TextíLabsins hjá Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi. TextílLabið er hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi og þar er m.a. fengist við textílþróun og nýsköpun með stafrænni tækni.

Margrét Katrín Guttormsdóttir er með diplóma í textílhönnun frá Myndlistaskólanum í Reykjavík árið 2018 og hún lauk síðan BA-prófi í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands á síðasta ári. Bakgrunnur hennar er einnig úr dansi því hún var á sínum tíma á dansbraut Menntaskólans við Hamrahlíð.

Margrét myndaði ásamt Ragnheiði Stefánsdóttur teymið Þráðlausar sem má rekja til 2018 þegar þær endurunnu textíl í húsgögnum með vefnaði. Hún vinnur í textíltilraunum í tengslum við tækni og efnishönnun, eins og nefnt var hér að framan. Hennar hefur verið getið í tímritinu Talking Textiles, sem er gefið út í tengslum við New York Textile Month.

Með þessum fyrirlestri Margrétar Katrínar í dag er punktur settur aftan við þriðjudagsfyrirlestra vetrarins, sem hafa verið skipulagðir í samstarfi Listasafnsins á Akureyri, VMA, MA og Gilfélagsins. Sem fyrr er ókeypis á fyrirlesturinn og eru allir velkomnir.