Fara í efni

Danskan er Íslendingum mikilvæg

Árni Hrólfur Helgason dönskukennari.
Árni Hrólfur Helgason dönskukennari.

Árni Hrólfur Helgason hóf að kenna haustið 1986, tuttugu og fjögurra ára gamall, og hefur síðan kennt án uppihalds.

Árni Hrólfur lauk kennaraprófi vorið 1986 og hóf kennslu í Barnaskóla Akureyrar um haustið. Þaðan lá leiðin í Gagnfræðaskóla Akureyrar sem síðan varð Brekkuskóli við samrunann við Barnaskólann. Í Brekkuskóla kenndi hann til 2007 þegar leiðin lá suður á Eyrarlandsholtið og Árni fór að kenna við Verkmanntaskólann. Í VMA staldraði hann við í sjö ár en hefur síðustu þrjú ár kennt við Naustaskóla á Akureyri. Aftur er Árni Hrólfur farinn að kenna í VMA, nú í afleysingastöðu.

Í gegnum tíðina hefur Árni Hrólfur fyrst og fremst kennt dönsku en einnig m.a. upplýsingatækni og lífsleikni. „Ég hef mest kennt dönsku. Málin bara æxluðust þannig að hún varð mín námsgrein og ég er mjög sáttur við það. Síðustu tuttugu til tuttugu og fimm ár hef ég fyrst og fremst kennt dönsku og því lít ég á mig sem dönskukennara,“ segir Árni Hrólfur.

Hann segir að núna sé viðhorf nemenda til dönskunnar mun jákvæðara en fyrir nokkrum árum. „Það er einfaldlega vegna þess að heill heimur hefur opnast nemendum með internetinu og þeir hafa heiminn í hendi sér í símanum. Í hruninu fluttu fjölmargir af landi brott, fyrst og fremst til Norðurlandanna, og þá opnuðust augu fólks fyrir gildi þess að læra norðurlandamál. Núna finnst mér mega merkja smá niðursveiflu í þessu – sem kannski fylgir svokölluðu góðæri. En hins vegar heyri ég ekki lengur að unga fólkið blóti dönskunni í sand og ösku eins og var ansi algengt.
Kennsluaðferðir hafa breyst verulega sem kemur ekki síst til af því að gott aðgengi er að allskyns efni – t.d. fréttamiðlum og myndefni af ýmsum toga. Oft byrja ég kennslustundir á því að opna vefsíðu einhvers fjölmiðils í Danmörku og bið krakkana að segja mér um hvað sé verið að skrifa á forsíðu miðilsins. Stóra málið er að krakkarnir nái megin innihaldinu, ekki að þeir skilji hvert einasta orð.
Á Netinu eru ótal upplýsingaveitur sem koma að góðum notum við dönskukennslu og þær nýti ég óspart. Því má ekki gleyma að krakkarnir hafa í höndunum gríðarlega öflug tæki á degi hverjum sem unnt er að nota á góðan og nytsamlegan hátt við kennsluna. Það sem við kennum hér á Íslandi er ekki hrein danska, sænska eða norska heldur miklu frekar sem má kalla „blandenavisk“. Áherslan er á að hjálpa krökkunum að lesa sér texta til gagns en ekki endilega að fínpússa danskan framburð.
Því miður er tíminn sem danskan hefur í grunnskólanum alltaf minni og minni. Námsskráin segir að grunnskólanemendur eigi að ná sömu færni í ensku og dönsku en það er algjörlega glórulaust markmið vegna þess hversu töm enskan er nemendum. Enskan er alls staðar í kringum nemendur en þeir þurfa hins vegar að hafa töluvert fyrir því að nálgast efni á dönsku. Því miður er verið að skera niður dönskukennsluna í grunnskólum og hún er í sumum skólum hálfgerð afgangsstærð. Þetta er að mínu mati afleit þróun,“ segir Árni Hrólfur.

Sumir ganga svo langt að segja að leggja eigi dönskukennslu af í skólum á Íslandi en Árni Hrólfur orðar það svo að þeir sem haldi því fram viti ekki um hvað málið snýst. „Stóra málið í þessu er norrænt samstarf. Með dönskunáminu fá nemendur ákveðinn stimpill sem veitir þeim aðgang að atvinnu- og skólakerfinu á Norðurlöndum. Ef þetta er ekki til staðar þurfa Íslendingar að byrja á því að fara á undirbúningsnámskeið í þessum löndum og læra tungumál viðkomandi landa frá grunni – áður en þeim er t.d. hleypt inn í skóla. Ég legg jafnan áherslu á þetta við mína nemendur og geri þeim ljóst að þeir þurfi á því að halda að læra dönskuna til þess að auðvelda þeim að stunda nám eða fá vinnu á hinum Norðurlöndunum. Þetta kemur mörgum á óvart og fólk virðist almennt ekki gera sér grein fyrir þessu.“