Fara í efni

Tekst á við fjölbreytta listsköpun

Ásdís Fanney Aradóttir.
Ásdís Fanney Aradóttir.

„Ég hef lengi haft áhuga á listum af ýmsum toga – myndlist, ritlist og leiklist – og því valdi ég að fara á listnáms- og hönnunarbraut. Reyndar velti ég lengi vöngum yfir því að fara í vélstjórn en þegar kom síðan að því að taka endanlega ákvörðun um námsval tók ég u-beygju og fór á listnáms- og hönnunarbraut. Ég sé ekki eftir því,“ segir Ásdís Fanney Aradóttir, sem er nú á þriðja ári í listnáminu í VMA. Hún horfir til þess að ljúka námi að ári liðnu.

„Ég hafði alltaf gaman af því að teikna og leira og vinna eitthvað í höndunum og ég hef haft tækifæri til þess að fylgjast með listsköpun frænku minnar, Sigrúnar Birnu Sigtryggsdóttur, sem kennir myndmennt og er í eigin myndlistarsköpun. Á þessu stigi málsins hef ég ekkert ákveðið hvað ég læri að VMA loknum en það verður eflaust eitthvað tengt listum. Mér finnst t.d. áhugavert nám í stafrænni hönnun í Tækniskólanum.“

Auk myndlistarinnar segist Ásdís Fanney hafa síðustu ár skrifað smásögur og ljóð og hún fer ekki leynt með áhuga sinn á Dungeons & Dragons spilinu þar sem hún er sögumaður og spilar reglulega með vinum sínum. D & D segir Ásdís vera vel til þess fallið að virkja ímyndunaraflið og það fari vel á því að spila það reglulega til hliðar við listnámið í VMA.

Þessa dagana er akrílverk Ásdísar á vegg mót austurinngangi VMA. Verkið vann hún í málunaráfanga á haustönn 2023 og er það ákveðin náttúrufantasía og á m.a. rætur í heimi Harry Potter og einnig hefur hún sótt hugmyndir í myndina úr tölvugerðum teiknimyndum. Kötturinn í myndinni er ekki tilviljun því dags daglega umgengst Ásdís tvo ketti. Um annan þeirra skrifaði hún smásögu og er þetta akrílverk hennar einskonar endapunktur sögunnar.

Auk ritlistar og myndlistar hefur Ásdís áhuga á leiklist og tók hún þátt í uppsetningu Leikfélags VMA á Dýrunum í Hálsaskógi í vetur, lék þar Ömmu mús. Þessi vinna segir hún að hafi verið afar gefandi og skemmtileg, leikhópurinn hafi verið samstíga í allri vinnu við uppsetninguna.

Til hliðar við skólann og annað sem Ásdís fæst við dags daglega vinnur hún í Nettó í Hrísalundi tvo eftirmiðdaga í viku og um aðra hverja helgi.