Fara í efni

Taktfasti ástríðusmiðurinn í byggingadeildinni

Þorleifur Jóhannsson - Leibbi.
Þorleifur Jóhannsson - Leibbi.

„Þegar mér bauðst kennsla hér í VMA árið 2001 verð ég að viðurkenna að ég þurfti að hugsa mig um. Ég hafði áður kennt í grunnskóla um tíma en þegar ég hætti því var ég á því að kennslukaflanum í mínu lífi væri þar með lokið. En ég lét þó til leiðast að kenna hér í VMA og sé ekki eftir því. Ég hef hvergi unnið jafn lengi á nokkrum vinnustað og ég verð að segja að þetta er einhver besti vinnustaður sem ég hef unnið á,“ segir Þorleifur Jóhannsson – Leibbi, kennari í bygginga- og mannvirkjadeild VMA. Þrátt fyrir að hafa mikla ánægju af kennslunni segist hann ákveðinn í því að ljúka þessum kafla þegar hann verður kominn á „löggildan aldur" en hann verður 67 ára í nóvember á næsta ári.

„Það er satt best að segja algjör tilviljun að ég varð smiður á sínum tíma,“ rifjar Leibbi upp. „Tólf ára gamall fékk ég vinnu á Iðju við Kaldbaksgötu hér á Akureyri, sem m.a. framleiddi hrífur. Vinna mín hjá Iðju í tvö sumur fólst m.a. í því að negla tindana í hrífuhausana. Árið 1972 vann ég við vöruútkeyrlu hjá Heildverslun Valdimars Baldvinssonar. Einu sinni keyrði ég vörur á Húsgagnavinnustofu Ármanns Þorgrímssonar en áður hafði hann átt hlut í Iðju og starfað þar og þar kynntist ég honum. Við Ármann tókum tal saman og hann nefndi við mig hvort ég hefði ekki áhuga á því að læra húsgagnasmíði. Úr varð að ég ákvað að slá til og fór á samning hjá Ármanni. Ég fór síðan í Iðnskólann árið 1978 og tók hann jafnhliða vinnunni. Ég varð síðar meistari í húsgagnasmíði því í þá daga var ekki kominn meistaraskóli og því gat maður orðið meistari í sinni iðngrein eftir ákveðinn tíma í starfi. Á verkstæðinu hjá Ármanni smíðuðum við m.a. hillusamstæður og stigahandrið. Við vorum mikið í rennismíði og þarna öðlaðist ég færni í að renna, sem ég bý ennþá að. Hjá Ármanni starfaði ég til ársins 1985 þegar hann lagði verkstæðið niður. Þá hafði orðið mikill samdráttur í sölu á innlendri húsgagnaframleiðslu, enda var henni ekki mögulegt að keppa við ódýrari innflutt húsgögn. Eftir að Ármann hætti sínum rekstri á húsgagnaverkstæðinu fór hann m.a. í verslunarrekstur og framleiddi einnig skó um tíma.
Ég fór hins vegar þegar þarna var komið sögu að vinna hjá fyrirtækinu Kótó, sem að stóðu Ingólfur Hermannsson, Sæmundur Gauti Friðbjörnsson og Árni Garðarsson. Fyrirtækið var fyrst og fremst í innréttingasmíði – m.a. smíðuðum við töluvert af borðum fyrir VMA. Starfsemi Kótó hófst í Grundargötu en var síðar í Lundi. SS Byggir keypti síðan plássið af Kótó í Lundi og bauð mér vinnu. En árið 1992 þegar lítið var að gera í smíðunum missti ég vinnuna og þá fékk ég ráðningu í eitt ár sem húsvörður í Glerárskóla. Síðan bauðst okkur hjónunum kennsla og húsvarsla í Sólgarði í gamla Saurbæjarhreppi. Ég kenndi þar handavinnu og einnig kenndi ég á trommur í Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Þegar síðan skólaselið í Sólgarði var lagt niður fluttum við í bæinn og ég fór aftur í smíðarnar. Fyrst réði Ölur hf., sem smíðaði innréttingar, hurðir o.fl., mig í vinnu en fljótlega kom í ljós að ég reyndist vera með ofnæmi fyrir einhverjum efnum í hvítspónlögðum plötum. Ég varð því að hætta og færa mig um set. Fór næst að vinna hjá Davíð Jónssyni á Trénausti og vorum við í tilfallandi vinnu – mest úti. Meðal annars vorum við í samstarfi við Þórarin Ágústsson um að reisa bjálkahús sem hann flutti inn á þessum tíma. Eitt þessara húsa var Strýtuhúsið í Hlíðarfjalli og við reistum fleiri slík hús víðar um land,“ segir Leibbi. Næst lá leiðin í VMA, þar sem hann hefur verið síðan.

Í þau ár sem Leibbi hefur verið við kennslu í VMA segir hann að vitaskuld hafi margt breyst. Tæknin hafi vitaskuld tekið miklum breytingum en í grunninn sé kennslan sú sama. Hvað sem allri tækni líði þurfi allir nemendur að tileinka sér grunninn sem þeir síðan byggi ofan á.

Leibbi segist alltaf hafa jafn gaman af smíðunum, þær veiti honum margar ánægjustundirnar. Fyrir utan vinnuna grípi hann oft í að smíða – t.d. ýmis hljóðfæri – og þá sé hann í vetur eins og sl. vetur með námskeið í Punktinum á Akureyri í rennismíði. „Kannski má segja sem svo að ég sé ástríðusmiður. Ég er alltaf að fá nýjar hugmyndir og ég verð helst að framkvæma þær – einfaldlega vegna þess að ég hef svo mikla ánægju af því.“

Fyrir utan smíðarnar er tónlistin helsta hugðarefni Leibba. Hann byrjaði að spila á trommur í hljómsveitinni Bravó árið 1964 – fyrir meira en hálfri öld! Og síðan þá hefur hann m.a. spilað í Ljósbrá, Hot Dogs, Geislum, Hljómsveit Ingimars Eydal, Hljómsveit Pálma Stefánssonar, Hljómsveit Finns Eydal, Upplyftingu og Hljómsveitinni 1.70. Og ennþá er Leibbi að tromma og nýtur þess sem aldrei fyrr. Tónlistin er - eins og smíðarnar - ástríða sem erfitt er að útskýra.