Fara í efni

Takmark okkar er að vera öflug og sýnileg

Loki – hinsegin félag í VMA hefur verið stofnað og boðar félagið til fyrsta formlega fundar í dag, föstudaginn 12. septemer kl. 12.45 í stofu B4. Neó Týr Hauks er fyrsti formaður félagsins.

„Núna er ég á þriðja ári í skólanum og þegar ég var á fyrstu önninni var starfandi hinsegin félag hér í skólanum en starfsemin var lítil og síðan lognaðist félagið út af. Með stofnun þessa nýja félags viljum við fara aftur af stað og takmark okkar er að vera öflug og sýnileg í okkar starfi og vera vettvangur þar sem hinsegin krakkar og bara allir geti hist og spjallað saman og skipst á skoðunum og upplýsingum. Það hefur verið ákveðið bakslag í réttindum hinsegin fólks og því finnst okkur ástæða til þess að hafa þennan vettvang með formlegum hætti í VMA.
Ég tók þátt í ferð með öðrum nemendum og kennurum úr VMA til Brussel í Belgíu síðastliðið vor þar sem við vorum að kynna okkur hvernig staðið er að málum hinsegin nemenda í skólum þar. Við fengum ýmsar hugmyndir út frá þessum heimsóknum um hvað við gætum gert hér eins og varðandi viðburði og fræðslu. Ég sé fyrir mér að við getum unnið náið með sambærilegu félagi í MA – PrideMA. Við viljum vera sýnileg og ætlum að hittast reglulega á föstudögum kl. 12.45 – í lok hverrar viku – í stofu B4. Að sama skapi hittist Regnbogahópurinn í sömu stofu í hádeginu á miðvikudögum.
Við erum með Instagramsíðu – Loki hinsegin félag VMA - þar sem við miðlum upplýsingum um hvað félagið er að vinna að á hverjum tíma. Einnig höfum við sett upp veggauglýsingar í skólanum þar sem er QR-kóði inn á Instagramsíðuna,“ segir Neó Týr Hauks.