Fara í efni

Ómetanlegur stuðningur Taks við nemendur byggingadeildar

Óli Björn Einarsson fer yfir málin með nemendum.
Óli Björn Einarsson fer yfir málin með nemendum.

Eins og í flestu öðru hefur tölvan ráðandi hlutverk á trésmíðaverkstæðum. Margar af stærri og flóknari vélum eru tölvustýrðar og því byggja starfsmenn smám saman upp sérhæfingu í stýringu vélanna. Nemendur á öðru ári í byggingadeild VMA hafa fengið tækifæri til þess að kynnast þessu hjá Taki innréttingum á Akureyri. Að undanförnu hafa nemendur fengið að koma þangað í heimsóknir og kynna sér hvernig fullkominn tölvustýrður fræsari vinnur. Óli Björn Einarsson, smiður á Taki, upplýsir nemendur um leyndardóma fræsarans og þeir fá tækifæri til þess að smíða sér litla skápa úr efni sem fræsarinn vinnur til samsetningar.

Sambærilega skápa hafa nemendur smíðað í námi sínu í VMA – með þeim vélbúnaði sem þeir hafa aðgang að í skólanum – en með  tölvustýrðum fræsara ganga hlutirnir hraðar fyrir sig og fyrir nemendur er afar fróðlegt að sjá hvernig hátæknibúnaður gerir á augnabliki það sem mannshöndina tekur drjúga stund að gera. Hér má sjá myndir af annars vegar skápum sem nemendur smíða í VMA og hins vegar skáp (sá merkti) eins og nemendur setja saman úr fræstu efninu frá Taki. 

Það má nærri geta að tölvustýrðar vélar hjá svo stóru innréttingafyrirtæki sem Tak er, sem er það stærsta á Akureyri, eru lykilatriði í því að hlutirnir gangi hratt og vel fyrir sig. Þær stærðartaka plöturnar í innréttingarnar og bora þær eins og þarf.

Auðunn Guðnason, verkstjóri hjá Taki, segir ánægjulegt að geta lagt byggingadeildinni lið með þessum hætti og um leið sé mikilvægt fyrir fyrirtækið að fá tækifæri til að kynna verkstæðisvinnuna fyrir verðandi húsasmiðum.

Það hefur verið mikið að gera hjá Taki á undanförnum árum í bæði smíði innréttinga og hurða. Að vonum smíðar fyrirtækið mikið af innréttingum fyrir móðurfélagið, byggingarverktakann SS-Byggi, en einnig fyrir aðra byggingarverktaka og Pétur og Pál út í bæ sem þarf að láta smíða fyrir sig innréttingar af öllum stærðum og gerðum.

Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingadeildar VMA, vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til forráðamanna Taks fyrir að taka á móti nemendum byggingadeildar og sýna þeim inn í heim innréttingasmíði með þessum hætti. Ómetanlegt sé þegar fyrirtæki eins og Tak bjóði fram slíkt verkefni fyrir nemendur - aðgang að umræddum fræsara, kennslu Óla Björns og allt efni sem til þarf í skápana fyrir nemendur á öðru ári.

Þetta er í annað skipti sem Tak býður upp á þetta, áður var það snemma árs 2020, rétt áður en covid faraldurinn brast á.