Fara í efni

Tækniþríeykið á lokasprettinum

Frá vinstri: Hákon Logi, Sigurður Bogi og Dagur.
Frá vinstri: Hákon Logi, Sigurður Bogi og Dagur.

Allir hafa þeir verið ómissandi tæknimennirnir á bak við tjöldin. Hafa ómælt lagt lóð á vogarskálar félagslífs í VMA frá þeir hófu nám í grunndeild rafiðna haustið 2017. Allir eru þeir að útskrifast núna fyrir jólin úr rafeindatækni og eru því á lokaspretti náms síns í VMA; Hákon Logi Árnason, Sigurður Bogi Ólafsson og Dagur Þórarinsson.

Þeir þremenningar komu hver úr sinni áttinni í grunndeild rafiðna í VMA. Sigurður Bogi var í Naustaskóla á Akureyri, Hákon Logi var í 10. bekk í Lundarskóla en hafði áður verið í Rimaskóla í Reykjavík og Dagur var í grunnskóla í Búðardal. Leiðir þeirra þriggja lágu saman þegar þeir innrituðust í grunndeild rafiðna haustið 2017 – og síðan hafa þeir fylgst að í grunndeildinni og áfram í gegnum námið í rafeindavirkjun.

Fljótlega eftir að þeir félagarnir hófu nám í VMA tóku þeir að láta að sér kveða í félagslífi í skólanum enda áhugi þeirra og kunnátta á tæknimálum mikil. Sigurður Bogi hefur verið lykilmaður í hönnun lýsingar á viðburðum og leikritum Leikfélags VMA, Dagur í hljóðmálunum og Hákon Logi í myndvinnslunni. Öflugt þríeyki sem alltaf hefur verið tilbúið til þess að leggja sitt af mörkum í þágu nemenda og skólans.

Auðvitað segir það sína sögu um tækniáhuga þremenninganna að þeir eru nú að ljúka námi í rafeindavirkjun. Að auki lýkur Sigurður Bogi stúdentsprófi við brautskráningu 18. desember nk. Undanfarnar vikur hafa þeir og níu samnemendur þeirra í rafeindavirkjuninni verið á fullu við að vinna að lokaverkefnum sínum sem þeir þurfa síðan að verja gagnvart sveinsprófsnefnd dagana 13., 14. og 15. desember nk. Áður þarf að skila skýrslum um lokaverkefnin.

Á þessum tímamótum má spyrja hvort skarðið verði ekki stórt í félagslífi VMA þegar Sigurður Bogi, Hákon Logi og Dagur hverfa á braut á einu bretti núna í lok haustannar. Vonandi ekki, segja þeir en „við erum viðbúnir því að það verði hringt í okkur,“ segir Sigurður Bogi og brosir. Þeir eru þess fullvissir að maður komi í manns stað, eins og jafnan áður, og minna á að eftir sem áður séu tækniáhugamenn í hópi nemenda sem nú muni láta til sín taka.

Allir eru þeir sammála um að námið í grunndeild rafiðna og rafeindavirkjuninni hafi staðið undir væntingum og ríflega það. Það hafi verið skemmtilegt og þeir hafi safnað í nestispokann mikilli þekkingu sem nýtist þeim vel í framtíðinni. Og þeir geta þess að námshópurinn í rafeindavirkjuninni hafi verið sérlega samheldinn og skemmtilegur og kennararnir fá líka marga plúsa í kladdann!

Allir hafa þeir, til hliðar við námið í VMA, verið að vinna sem verktakar hjá fyrirtækinu Exton, sem sérhæfir sig í  hljóð-, ljós- og myndlausnum. Sigurður Bogi segir að eftir áramót verði hann starfsmaður Exton í fullu starfi, bæði hér nyrðra og á höfuðborgarsvæðinu. Hvað frekara nám varðar íhugi hann að fara í einhvers konar hátækniverkfræði. Dagur hefur tekið stefnuna á nám í skóla í Bretlandi þar sem áherslan verði á hljóðblöndun, fyrir m.a. viðburði og leiksýningar. Og Hákon Logi segist hafa mestan áhuga á kvikmyndatengdu námi, hér á landi eða erlendis, til þess að víkka út þekkinguna sem tökumaður og klippari.