Fara í efni

Tækifæri sem við gátum ekki hafnað

Steinar Logi og Örn Smári í Samkomuhúsinu.
Steinar Logi og Örn Smári í Samkomuhúsinu.

„Þetta var einfaldlega tækifæri sem við gátum ekki hafnað,“ segja þeir Steinar Logi Stefánsson og Örn Smári Jónsson sem munu á næstunni verja ófáum stundum í Samkomuhúsinu á Akureyri við æfingar á söngleiknum Kabarett sem verður frumsýndur þar 26. október nk. Þeir félagar hafa komið við sögu í leiklistinni í VMA undanfarin ár, Steinar Logi hefur tekið þátt í fjórum leikritum í skólanum, Bjart með köflum, Litlu hryllingsbúðinni, Mér er fokking drullusama og Ávaxtakörfunni, og Örn Smári steig sín fyrstu spor á leiksviðinu sl. vetur í uppfærslu Leikfélags VMA á Ávaxtakörfunni.

Þeir eru sammála um að það sé ennþá óraunverulegt fyrir þá að vera komnir af stað í æfingar á verki í atvinnuleikhúsi. Fyrir fáeinum dögum hafi þeir fengið boð á facebook um að mæta í prufur fyrir Kabarett og um miðja síðustu viku hafi orðið ljóst að þeir yrðu hluti af leiklistarhópnum sem setji verkið upp í Samkomuhúsinu. Og síðan var fyrsti samlestur á verkinu og farið yfir málin í gær, mánudag. Það hefur því margt óvænt gerst á allra síðustu dögum. „Ég verð að segja að það kom mér mjög á óvart að ég skuli fá þetta tækifæri enda hef ég bara leikið í Ávaxtakörfunni. En þetta er vissulega afar spennandi og skemmtilegt,“ segir Örn Smári.

Steinar Logi segir það ekkert launungarmál að nú hafi gamall draumur orðið að veruleika. Sig hafi lengi dreymt um að vera í þessum sporum. „Það er alveg ljóst að framundan er mikil vinna hjá okkur öllum og nú þegar er allt komið í fullan gang. Ekki aðeins eru skipulagðar æfingar í Samkomuhúsinu, nú þegar höfum við fengið heimavinnu sem felst í því að lesa okkur vel til um þann tíðaranda sem var í Berlín þegar nasisminn var að skjóta rótum upp úr 1930. Ég lít á þetta sem rosalega gott tækifæri og hvatningu,“ segir Steinar Logi.

Steinar Logi og Örn Smári verða aukaleikarar í sýningunni, munu þó mæla nokkur orð af munni fram og syngja og dansa. Steinar Logi er í vetur fjarnámsnemi í VMA en Örn Smári er á textílsviði listnámsbrautar. Hann segir að óhjákvæmilega verði snúið að koma ströngu æfingaferli næstu vikurnar heim og saman við námið í skólanum „en vonandi leysist það í góði samvinnu LA og VMA,“ segir Örn Smári.

Sem fyrr segir verður Kabarett frumsýndur í Samkomuhúsinu 26. október nk. Leikstjóri er Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, og um tónlistarstjórn sér Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Þýðing verksins var í höndum Karls Ágústs Úlfssonar og er hann einn af leikurum í sýningunni ásamt Andreu Gylfadóttur, Hákoni Jóhannessyni, Hjalta Rúnari Jónssyni, Jóhanni Axel Ingólfssyni, Birnu Pétursdóttur, Ólöfu Jöru Skagfjörð o.fl.