Fara í efni

Sveinspróf í vélvirkjun um liðna helgi

Sjö þreyttu sveinspróf í vélvirkjun í VMA að þessu sinni. Mynd: Hörður Óskarsson.
Sjö þreyttu sveinspróf í vélvirkjun í VMA að þessu sinni. Mynd: Hörður Óskarsson.

Um liðna helgi var sveinspróf í vélvirkjun í húsakynnum málmiðnbrautar VMA. Sveinsprófinu var skipt upp í skriflegt próf, smíðaverkefni, bilanaleitarverkefni, slitmælingarverkefni, suðuverkefni, frágang smíðaverkefnis og vinnuhraða við smíðaverkefnið og var hver þáttur metinn sérstaklega. Standast þurfti alla prófþætti prófsins til að ljúka sveinsprófinu.

Í skriflega prófinu var spurt um vélar, loft- og vökvakerfi, frystikerfi, öryggisfræði, suðu og lóðningar og verkáætlanir, auk almennra spurninga.

Í smíðaverkefninu var horft til hæfni og nákvæmni próftakans við meðferð handverkfæra, mælitækja, lestur teikninga og vélavinnu, t.d. spóntökuvéla. Smíðaeinkunnin vegur 45% af lokaeinkunn verklegs prófs. Frágangur og útlit stykkisins vegur 10% af lokaeinkunn verklegs prófs

Í bilanaleitinni var leitað að bilun í díselvél, aðgerð framkvæmd og gerð stutt skýrsla um hana.

Í slitmælingu voru ýmsir hlutir mældir í díselvél og metið hvort þeir væru í lagi eða hvort skipta þyrfti um þá.

Suðuverkefni var prófað í flestum algengum suðuaðferðum á járni, kopar, áli, steypujárni og ryðfríu stáli ásamt kveikingu. Einnig var prófað í logskurði.

Gefið var fyrir vinnuhraða og er einkunn fyrir hann sjálfstæð einkunn á einkunnablaðinu.

Sjö þreyttu sveinspróf í vélvirkjun að þessu sinni: Aron Sigurjónsson, Bryngeir Óli Viggósson, Hólmar Árni Erlendsson, Kristján Valur Sigurðsson, Pétur Sigurður Birkisson, Samúel Ingi Björnsson og Sigurður Andri Gunnarsson. Flestir lærðu þeir vélvirkjun í VMA.