Fara í efni

Sveinspróf í húsasmíði í VMA

Vinnutrappa í smíðum í sveinsprófinu.
Vinnutrappa í smíðum í sveinsprófinu.

Um helgina var sveinspróf í húsasmíði í húsakynnum byggingadeildar VMA. Þrettán þreyttu sveinsprófið, þar af voru tólf nemendur úr VMA en einn próftaka tók námið í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað.

Sveinspróf var á fjórum stöðum á sama tíma – auk VMA í Tækniskólanum og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í Reykjavík og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

Prófið var annars vegar verklegt og hins vegar bóklegt. Verklega prófið var samtals 20 klukkustundir og bóklegi hlutinn 2 klukkustundir. Verklega prófið hófst sl. föstudag en síðan var bóklegt próf að morgni laugardags og verklegi hlutinn tók þá við og hélt áfram eftir hádegi. Verklega prófinu lauk síðan í gær, sunnudag.

Verklega prófið fólst í því að smíða vinnutröppu samkvæmt teikningu sem nemendur fengu og einnig var hluti prófsins fólginn í því að brýna hefiltönn og sporjárn eftir kúnstarinnar reglum.

Allir þeir tólf nemendur úr VMA sem tóku sveinsprófið um helgina útskrifuðust frá skólanum í desember sl. Við það tækifæri voru þeim afhentar gjafir frá Byko og einnig fengu tveir nemendur viðurkenningar frá Byggiðn fyrir góðan árangur í faggreinum í húsasmíði.