Fara í efni

Súrmjólk í hádeginu á Melum

Á Melum. Núverandi og fyrrverandi nemendur VMA.
Á Melum. Núverandi og fyrrverandi nemendur VMA.

Það er skammt stórra högga á milli í leiklistarsköpun sem tengist VMA á einn eða annan hátt. Leikfélag VMA frumsýndi Lísu í Undralandi um síðustu helgi og seinni tvær sýningarnar eru á morgun og laugdaginn. Í kvöld er síðan komið að frumsýningu á splunkunýju verki, Í fylgd með fullorðnum, sem Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri VMA, hefur skrifað og hann leikstýrir einnig sýningunni, sem Leikfélag Hörgdæla setur upp á Melum í Hörgárdal.

Pétur segir að sýningin eigi sér langan aðdraganda. Fyrstu hugmyndir að verkinu hafi hann fengið árið 2014 og síðan eru liðin átta ár. Pétur segir að grunnur hugmyndarinnar hafi frá upphafi verið lög og textar Bjartmars Guðlaugssonar sem heldur betur hafa fest sig í hjörtum landsmanna. „Ég fékk tækifæri til þess að spila í hljómsveit með Bjartmari á Pollamóti Þórs fyrir nokkrum árum og þá nefndi ég þessa hugmynd við hann fyrst. Síðastliðið haust var ég síðan í viðræðum við Leikfélag Hörgdæla um að leikstýra uppfærslu hjá þeim og þá skaut ég því að þeim að ég ætti í skúffunni hjá mér hugmynd að þessu verki. Þeim leist strax vel á hugmyndina og þá setti ég kraft í að skrifa verkið. Það fer vel á því að sýna þetta nýja verk, byggt á verkum Bjartmars, honum til heiðurs á árinu sem hann verður sjötugur.
Við hófum síðan æfingar 13. janúar og nú er komið að frumsýningu. Ég hef verið að vinna með frábærum leikhópi sem hefur lagt sínar hugmyndir inn í verkið í æfingaferlinu. Ég byggi þetta á lögum og textum Bjartmars og fer þá leið að láta fimmtuga konu, Birnu, horfa um öxl og rifja upp æskuna og táningsárin með Sumarliða og Krissý. Hún var með öðrum orðum í fylgd með fullorðnum. Það má kannski lýsa þessu sem gamandrama með tónlist Bjartmars, í sýningunni flytjum við brot úr átján af vinsælum lögum Bjartmars,“ segir Pétur. Þriggja manna hljómsveit skipuð Halla Gulla á trommur, Friðþjófi – Didda Ísfeld á bassa og Hallgrími Jónasi Ómarssyni á gítar spilar lög Bjartmars í sýningunni.

Ekki aðeins tengist sýningin VMA vegna þess að Pétur viðburðastjóri leikstýrir og er höfundur leikverksins. Harpa Birgisdóttir, kennari í hársnyrtiiðn, leggur hönd á plóg við hárgreiðsluna og helmingur leikara í sýningunni eru núverandi eða fyrrverandi nemendur VMA: Linda Björg Kristjánsdóttir, Sveinn Brimar Jónsson, Ísak Óli Bernharðsson, Sindri Snær Konráðsson, Særún Elma Jakobsdóttir, Bjarki Höjgaard, Þorkell Ingvason og Brynjar Helgason. Auk þess er Hákon Valur Sigurðsson í tæknimálunum og Kristján Blær Sigurðsson sér um markaðs- og kynningarmál sýningarinnar.

Framangreindir eru á meðfylgjandi mynd, að Hákoni Val Sigurðssyni frátöldum.

Rými er fyrir ríflega hundrað áhorfendur á Melum og er þegar orðið uppselt á fyrstu þrjár sýningarnar og vel er bókað á næstu sýningar. Það er því vert að geyma ekki lengi að tryggja sér miða.

Þess má geta að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, verður viðstaddur frumsýninguna á Í fylgd með fullorðnum í kvöld.