Fara í efni

Sumarhúsið tekur á sig mynd

Unnið á fullu í rafmagninu.
Unnið á fullu í rafmagninu.

Það var margt um manninn í sumarbústaðnum eða frístundahúsinu sem nú rís norðan við hús VMA, þegar litið var þangað inn í síðustu viku. Verðandi rafvirkjar og kennari þeirra og verðandi húsasmiðir og kennari þeirra unnu að hinum ýmsu verkefnum í húsinu sem hefur verið í byggingu í vetur.

Eitt stykki frístundahús er mikilsvert verkefni fyrir nemendur að glíma við. Bygging þess er í höndum nemenda á öðru ári í húsasmíði, rafhlutinn í höndum nemenda í rafvirkjun og um lagnavinnuna sjá nemendur í pípulögnum.

Eins og segir í kvæðinu: Drjúgur verði síðasti áfanginn.

Það er gömul saga og ný að frágangsvinnan tekur drjúgt mikinn tíma. Í svo ótal mörg horn er að líta til þess að allt falli þetta saman. Glerjaðir gluggarnir eru komnir á sinn stað, búið er að klæða veggi og að stórum hluta upp í loftin, verið er að vinna í ýmsu á svefnlofti, rafvirkjanemendur eru á fullu í að draga í töflu og koma tenglum fyrir á sinn stað og áður en langt um líður fara pípulagnanemar í gólfhitalagnir og húsasmíðanemarnir fara á næstunni í að klæða húsið að utan.

Nú er í smíðum lagnakassi, sem verður settur utan á húsið. Tryggingafélög eru farin að gera kröfur um slíka kassa á frístundahúsum, til þess að fyrirbyggja stórtjón í húsunum ef eitthvað óvænt gerist með lagnirnar.

Nemendur í kvöldskóla í húsasmíði smíðuðu fataskápa í húsið og nemendur í dagskóla í húsasmíði hafa verið að smíða aðra skápa í innréttingar.

Eins og áður fer bygging hússins og frágangur eins langt og mögulegt er áður en kennslu lýkur um miðjan maí. Húsið verður síðan selt á því stigi sem það verður þá.