Fara í efni

Sumarbústaðurinn tekur á sig mynd

Sumarbústaðurinn stendur við byggingadeildarhúsið.
Sumarbústaðurinn stendur við byggingadeildarhúsið.

Nú er tekið að síga verulega á seinni hlutann á vorönninni og nemendur á öðru ári í byggingadeildinni keppast við að ljúka sem mestu við byggingu sumarbústaðarins sem þeir hafa unnið að í vetur. Þessa dagana er verið að ljúka við að klæða veggi bústaðarins að innan, glerja, frágangi að utan er að mestu lokið og búið er að smíða skápa í baðherbergi og eldhús.

Húsið, sem er tæplega 49 fermetrar að stærð, skiptist í forstofu, svefnherbergi, baðherbergi og stofu með eldhúskrók.

Bygging sumarbústaðar hefur verið fastur liður í námi annars árs nema og reynst þeim afar mikilvægt verkefni til þess að læra og reka sig á. Þetta er einnig mikilvægt verkefni fyrir rafiðnaðardeild VMA því nemendur þar sjá um raflagnir í húsinu.

Húsið verður selt að lokinni þessari önn á því byggingarstigi sem það verður þá. Halldór Torfi Torfason, brautarstjóri byggingagreina, segir að húsið verði þá frágengið að utan og einnig að stærstum hluta að innan, að því undanskildu að ekki verða gólfefni, engin hreinlætistæki eða tæki í eldhús.

Hér á heimasíðunni var fjallað um bygginguna sl. haust og síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið, eins og hér má sjá.