Fara í efni

Suðrænu búningarnir skiluðu sigri!

Kennaraliðið með suðrænu ívafi.
Kennaraliðið með suðrænu ívafi.
Á hverjum fimmtudegi er miðað við að í löngu frímínútunum sé einhver uppákoma í Gryfjunni - tónlist, upplestur eða eitthvað allt annað. Síðastliðinn fimmtudag var efnt til spurningakeppni í Gryfjunni milli kennara og nemenda sem eru að undirbúa sig undir þátttöku í hinni árlegu spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur.
Lið nemenda skipuðu Anna Kristjana Helgadóttir, Ingimar Atli Knútsson og Friðrik Páll Haraldsson. Í hinu vaska kennaraliði voru Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari, Vilhjálmur G. Kristjánsson kennari í vélstjórn og Elín Björk Unnarsdóttir, náttúrufræði- og stærðfræðikennari.
Athygli vakti að kennarar mættu í suðrænum klæðnaði, þrátt fyrir að úti blésu kaldir vindar. Hvort þetta óvænta útspil kennara gerði útslagið skal ósagt látið en svo mikið er víst að þeir unnu nokkuð sannfærandi sigur á nemendum í þessari prufukeppni. Spyrill var Pétur Guðjónsson viðburðastjóri.
Hér eru nokkrar myndir sem voru teknar við þetta tækifæri.