Fara í efni

Stýrihópur mennta- og barnamálaráðherra leggur til sameiningu VMA og MA

Í dag var kynnt í Hofi á Akureyri með starfsfólki og nemendum VMA og MA skýrsla starfshóps Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra um eflingu framhaldsskóla, sem settur var á stofn í apríl sl. Starfshópurinn leggur til sameiningu Verkmenntaskólans á Akureyri og Menntaskólans á Akureyri í einn framhaldsskóla.

Í niðurstöðu skýrslu starfshópsins segir orðrétt:

Stýrihópurinn telur að sameining skólanna í einn öflugasta framhaldsskóla á landinu væri mikið framfaraspor fyrir stöðu menntunar á framhaldsskólastigi bæði á Norðurlandi eystra og landinu öllu. Til yrði 1.800 nemenda skóli með mjög fjölbreyttu og öflugu námsbrauta- og námsvali fyrir nemendur á öllum aldri. Til viðbótar við nám til stúdentsprófs og námi í iðn- og starfsnámi verða til tækifæri til að flétta saman ýmsum námsbrautum á sviði bóknáms, listgreina og starfsgreina á grundvelli STEAM-hugmyndafræðinnar. Skólinn mun veita
ungu fólki alveg nýja valkosti til að auðvelda þeim að undirbúa sína framtíð í síbreytilegum heimi. Samhliða þessari uppbyggingu þyrfti að koma til styrking á stoðþjónustu og þróunarstarfi innan skólans, með áherslu á símenntun og starfsþróun starfsfólks.

Stýrihópurinn gerir sér vel ljóst að sameining tveggja ólíkra skóla felur í sér margvíslegar áskoranir. Með sameiningunni þarf að hafa að leiðarljósi að hinn sameinaði skóli bjóði upp á öflugra nám en skólarnir sitt í hvoru lagi. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að vanda til verka enda verkefnið mikilvægt og umfangsmikið. Markmið eiga að vera skýr og afmörkuð. Lykilatriði er að skólastjórnendur virki starfsfólk, nemendur, foreldra og nærsamfélagið. Þá þarf að leggja áherslu á samráð við nærsamfélagið t.d. atvinnulíf, háskóla, sveitarstjórnir, fyrrum nemendur o.fl. Mikilvægt er að viðurkenndum aðferðum við breytingastjórnun verði fylgt og verkinu verði áfangaskipt með skýrri tímalínu.

Hér er skýrsla starfshóps mennta- og barnamálaráðherra um eflingu framhaldsskóla.
Frá málinu var greint í dag á vef Stjórnarráðsins.
Hér er umfjöllun Akureyri.net af skýrslu starfshópsins og kynningarfundinum í Hofi í dag.