Fara í efni

Stundatöflur fyrir haustönn afhentar í dag

Stundatöflur verða afhentar í Gryfjunni í VMA í dag, fimmtudaginn 21. ágúst, og á morgun verður síðan fyrsti kennsludagur samkvæmt stundaskrá og hefst kennsla kl. 08:15.

Stundatöflur verða afhentar í Gryfjunni í VMA í dag, fimmtudaginn 21. ágúst, og á morgun verður síðan fyrsti kennsludagur samkvæmt stundaskrá og hefst kennsla kl. 08:15.

Stundatöflur verða afhentar í dag sem hér segir:
Kl. 09:30 – 10:00 Útskriftarnemar.
Kl. 10:00 – 11:00 Félagsfræðabraut, náttúrufræðibraut og vélstjórnarbraut.
Kl. 11:00 – 12:00 Aðrar brautir.
Kl. 13:00 – 13:30 Nýir og endurinnritaðir nemendur fæddir 1997 og fyrr.
Kl. 13:30 – 14:00 Nýnemar (fæddir 1998 og síðar) sem eru að koma beint úr grunnskóla.

Eftir að nýnemar hafa fengið stundatöflur í sínar hendur hitta stjórnendur skólans þá í Gryfjunni kl. 14 en síðan fara nýnemar  í kennslustofur með umsjónarkennurum og þar verður farið yfir ýmsa þætti er varða fyrstu dagana í skólanum ásamt því að gengið verður um skólann. Gert er ráð fyrir að nemendur verði með umsjónarkennurum sínum til kl. 15.30-16.00. Rétt er að taka fram að forráðamönnum nýnema er velkomið að vera með þeim allan þennan fyrsta skóladag í VMA.

Klukkan 16-17 í dag verður síðan kynningarfundur fyrir foreldra í stofu M01 þar sem  stjórnendur skólans hitta foreldra og svara spurningum. Þann 2. september verður annar fundur stjórnenda með foreldrum og þar verða einnig umsjónarkennarar nýnema.

Á  meðan á töfluafhendingu stendur í dag, verða starfsmenn Lostætis, sem annast matarsölu í matsalnum í Gryfjunni, á staðnum og selja matarkort/annarkort. Einnig er hægt að kaupa matarkort í gegnum vef Lostætis.

Bókalista fá nemendur með stundatöflunni á fimmtudag. Flestar bækur eru til sölu í Eymundsson en einnig eru hefti frá kennurum seld á skrifstofunni. Í fyrstu kennslustund fá nemendur námsáætlun fyrir önnina, upplýsingar um verkefnaskil,  námsmat, kennslubækur og fleira.

Nýnemaferðir verða í næstu viku og fá nemendur upplýsingar hjá umsjónarkennara sínum hvaða dag þeir fara (hver nemandi fer í eina ferð). Þann dag  mæta nemendur í skólann kl. 8.15 og þurfa að vera klæddir eftir veðri. Þeir þurfa ekki að taka með sér nesti. Komið verður til baka milli kl. 15 og 16.