Stórleikir framundan í fótboltanum

Eins og vera ber eru nemendur VMA með mörg járn í eldinum til viðbótar við fullt nám. Margir stunda íþróttir af ýmsum toga og einn þeirra er Snorri Kristinsson, sem hóf á þessari önn nám á íþrótta- og lýðheilsubraut. Snorri er á fullu í knattspyrnunni og þó svo að komið sé fram í október er hann og félagar hans í 2. flokki KA enn á fullu í boltanum – næsta verkefni eru tveir leikir við gríska liðið PAOK í Evrópukeppni ungmennaliða og er spilað bæði heima og að heiman.
Til viðbótar við Evrópukeppnina var Snorri valinn á dögunum í U17 landslið Íslands og framundan eru tveir landsleikir í Georgíu gegn heimamönnum og Grikkjum. Og síðan má ekki gleyma því að Snorri hefur verið í hóp í meistaraflokki KA í Bestu deildinni og komið inn á í nokkrum leikjum.
Snorri er Akureyringur í húð og hár – eða því sem næst því hann flutti þriggja ára gamall með fjölskyldunni frá Reykjavík til Akureyrar. Íþróttirnar, sérstaklega fót- og handbolti, hafa lengi fylgt Snorra en á síðasta ári ákvað hann að leggja handboltann til hliðar og einbeita sér að fótboltanum.
Snorri er einn af lykilmönnunum í sterkum 2. flokki KA sem varð Íslandsmeistari í fyrra og tryggði sér farseðilinn í Evrópukeppni unglingaliða 19 ára og yngri – UEFA Youth League. Í fyrstu umferðinni voru andstæðingarnir lettneska liðið FS Jelgava og skildu liðin jöfn, 2-2, í fyrri leiknum 17. september sl. í Lettlandi en KA-strákarnir höfðu sigur 1-0 í seinni leiknum á KA-vellinum 1. október sl. og tryggðu sér farseðilinn í næstu umferð þar sem þeir mæta gríska liðinu PAOK. Fyrri leikurinn verður spilaður á KA-vellinum 22. október nk. en sá síðari í Grikklandi 5. nóvember nk.
Snorri segir að hann og félagar hans í 2. flokki KA séu vel meðvitaðir um að gríska liðið PAOK sé töluvert sterkara en það lettneska en engu að síður telur hann að KA eigi góða möguleika. Lykilatriði sé að liðið sýni sínar bestu hliðar í fyrri leiknum á heimavelli, á velli sem þeir þekki út og inn. Í KA-liðinu eru auk Snorra tveir leikmenn sem stunda nám við VMA, Viktor Máni Sævarsson og Viktor Breki Hjartarson.
„Auðvitað er það stór bónus fyrir okkur leikmennina og KA að taka þátt í þessari keppni. Það er mjög gaman og þroskandi fyrir okkur að upplifa að taka þátt í þessu. Það var áhugavert að upplifa hversu strangar reglur giltu varðandi umgjörð á leiknum hér heima gegn lettneska liðinu, miklu strangari reglur en gengur og gerist,“ segir Snorri
En hvernig horfir Snorri til framtíðar í fótboltanum – til hliðar við námið í VMA? Hann segist leggja áherslu á að standa sig vel og síðan komi í ljós hverju það muni skila í framtíðinni – hér á landi eða mögulega erlendis.