Fara í efni

Stórir viðburðir framundan í félagslífinu

Eyþór Daði er í öðru aðalhlutverkanna í Tröllum.
Eyþór Daði er í öðru aðalhlutverkanna í Tröllum.

Nýrri önn fylgja nýjar áskoranir í félagslífinu. Sem fyrr verður í mörg horn að líta fyrir stjórn Þórdunu og alla þá sem leggja hönd á plóg í félagslífinu í skólanum.

Þrír viðburðir eru stærstir á þessari önn:

Sturtuhausinn – söngkeppni VMA, sem verður í Gryfjunni 23. janúar nk. Skráning er í fullum gangi og er miðað við að henni ljúki 13. janúar nk. Nú er um að gera að taka þátt og geyma það ekki fram á síðasta dag að skrá sig. Um undirleikinn sér hljómsveit skipuð nemendum í skólanum, að hluta til hljómsveitin sem spilaði á jólatónleikunum í Gryfjunni í desember sl. Allar upplýsingar og skráning í keppnina á fb.síðu Þórdunu. Til mikils er að vinna, að sjálfsögðu, hin ágætustu verðlaun og sigurvegarinn tekur þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna.

Söngleikurinn Tröll verður sýndur í Menningarhúsinu Hofi 16. febrúar nk. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur leikhópurinn æft verkið frá því í nóvember og voru stuttir bútar úr því sýndir í desember sl., m.a. á brautskráningu VMA í Hofi og á Glerártorgi. Eyþór Ingi Eyþórsson, formaður Þórdunu, sem er í öðru burðarhlutverkanna í sýningunni, segir að æfingar hafi aftur hafist í þessari viku og nú verði æft stíft alveg fram að frumsýningu í Hofi. Sem stendur er æft í M 01 í VMA en að Sturtuhausnum loknum færast æfingarnar í Gryfjuna og loks í Hof síðustu dagana fyrir frumsýningu. Eyþór segir að um viðamikla og spennandi uppfærslu sé að ræða og margir komi til með að leggja hönd á plóg við uppsetninguna. Hann segir æfingarnar hafa gengið vel og er bjartsýnn á flotta uppfærslu. Um er að ræða frumsýningu á þessu leikverki hér á landi, leikgerðin er unnin upp úr samnefndri kvikmynd. Miðasala hófst á Tröll í desember sl. og er hægt að kaupa miða á vef Mak. Fjórar sýningar hafa verið ákveðnar en Eyþór segir að ef vel gangi sé horft til þess að bæta við sýningum.

Árshátíð VMA verður á sínum stað í mars. Vinna við undirbúning hennar er komin í fullan gang og segir Eyþór að stefnt sé að því að opinbera á Sturtuhausnum 23. janúar nk. hvaða skemmtikraftar komi fram á árshátíðinni í ár.