Fara í efni

Spenningur í gangi - miðasala hafin

Vígalegur og tilbúinn í slaginn! Mynd: Hilmar F.
Vígalegur og tilbúinn í slaginn! Mynd: Hilmar F.

Þann 8. febrúar nk. frumsýnir Leikfélag VMA söngleikinn Bugsý Malón. Eins og vera ber hefur verið í mörg horn að líta á æfingatímanum enda sýningin stór og nokkuð flókin. Grunnurinn var lagður í æfingum fyrir áramót, í október og nóvember, og í desember voru leikarar í sýningunni á faraldsfæti og sýndu atriði úr sýningunni, m.a. á Glerártorgi og við brautskráningu VMA fyrir jólin.

Þegar röskar þrjár vikur eru fram að frumsýningu segist Jokka G. Birnudóttir aðstoðarleikstjóri vera ánægð með stöðu mála. Ekki sé annað hægt að segja að æfingar hafi til þessa gengið ljómandi vel og ánægulegt sé að leikararhópurinn samanstandi af leikurum sem áður hafi stigið á svið hjá Leikfélagi VMA undanfarin ár og einnig mörgum efnilegum nýnemum sem láti til sín taka í sýningunni.

Núna í janúar er æft á hverjum degi nema sunnudögum kl. 17:30 til 21:00 og verða æfingarnar í VMA fram að mánaðamótum er æfingarnar færast á stóra sviðið í Menningarhúsinu Hofi þar sem verkið verður síðan frumsýnt 8. febrúar nk., sem fyrr segir.

Um þrjátíu leikarar eru í sýningunni og nokkrir þeirra bregða sér í fleiri en eitt hlutverk. Þetta er því mannmög sýning og um margt flókin því tvinna þarf saman á skemmtilegan hátt talað orð, söng og dans.

Söngþjálfunin er í höndum Þórhildar Örvarsdóttur, Ívar Helgason hefur lagt línur um samhæfingu í dansatriðunum og Haukur Sindri Karlsson, fyrrverandi nemandi í VMA, sem nú stundar nám í Danmörku, hefur spilað inn tónlistina fyrir sýninguna.

„Mér finnst þetta ganga mjög vel og þetta mjakast allt í rétta átt. Við erum á áætlun, það er fyrst og fremst spenningur í gangi, ekkert stress,“ segir Gunnar Björn Guðmundsson, leikstjóri sýningarinnar. „Þetta er vissuleg talsvert stór og flólkin sýning og því í mörg horn að líta. Við munum æfa markvisst í Gryfjunni og öðrum rýmum VMA áður en við flytjum okkur í Hof og æfum þar á stóra sviðinu með uppsettri leikmynd,“ segir Gunnar Björn sem hefur hannað leikmyndina og þessa dagana er verið að smíða hana í VMA. Utan um þá vinnu heldur Sveinn Hrafnkelsson.

Um hár og förðun í sýningunni sjá Harpa Birgisdóttir, Jóhanna Þurý Heimisdóttir og Hrafnhildur Sunna Eyþórsdótti

Yfir búningahönnunni er Elísabeth Ása Eggerz og fær hún góða aðstoð frá leikmunadeild Leikfélags Akureyrar.

Miðasala er þegar hafin á sýningar á Bugý Malón á vef Menningarfélags Akureyrar. Fjórar sýningar eru áætlaðar á verkinu, 8., 10., 15. og 17. febrúar.