Fara í efni

Stjórnendur framhaldsskóla á Norðurlandi í heimsókn í VMA

Frá vinstri: Halldór Jón Gíslason, Karl Frímannsson, Laufey Leifsdóttir, Selma Barðdal Reynisdóttir,…
Frá vinstri: Halldór Jón Gíslason, Karl Frímannsson, Laufey Leifsdóttir, Selma Barðdal Reynisdóttir, Ásta F. Flosadóttir, Benedikt Barðason, Lára Stefánsdóttir, Sigurbjörn Árni Arngrímsson og Sigurlaug A. Gunnarsdóttir.

Stjórnendur hinna fimm framhaldsskólanna á Norðurlandi komu í heimsókn í VMA í gær. Þeir báru saman bækur sínar og fóru um skólann og kynntu sér húsakynni og skólastarfið.

Benedikt Barðason skólameistari VMA og Ásta Fönn Flosadóttir aðstoðarskólameistari tóku á móti kollegum sínum og veittu þeim innsýn í skólastarfið. Benedikt segir afar mikilvægt að skólastjórnendur fái tækifæri til þess að hittast reglulega og fara yfir ýmis sameiginleg mál því þó svo að eðli málsins samkvæmt séu skólarnir á ýmsan hátt ólíkir sé þó fjölmargt líkt og verkefnin því ekki ósvipuð. Benedikt nefnir að skólameistararnir reyni að hafa fjarfund að jafnaði hálfs mánaðarlega til þess að ræða hin ýmsu sameiginlegu mál.

Langt er um liðið síðan skólastjórnendur á Norðurlandi hafa fengið tækifæri til þess að hittast, síðast var það á haustþingi á Sauðárkróki við upphafi haustannar. Benedikt segir stefnt að því að þessi heimsókn marki upphafið á gagnkvæmum heimsóknum skólastjórnendanna á næstu mánuðum, ætlunin sé að fara í slíkar heimsóknir í alla framhaldsskólana á Norðurlandi, sem eru auk VMA Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllskaga í Ólafsfirði, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki, Framhaldsskólinn á Húsavík og Framhaldsskólinn á Laugum í Þingeyjarsveit.

VMA heimsóttu í gær Halldór Jón Gíslason skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík, Karl Frímannsson skólameistari Menntaskólans á Akureyri, Selma Barðdal Reynisdóttir skólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Laufey Leifsdóttir aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Lára Stefánsdóttir skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga, Sigurbjörn Árni Arngrímsson skólameistari Framhaldsskólans á Laugum og Sigurlaug A. Gunnarsdóttir aðstoðarskólameistari Menntaskólans á Akureyri.