Stjórn Þórdunu í Skjern og Billund
„Strax og við komum til Billund héldum við rakleiðis til Skjern, rúmlega sjö þúsund manna bæjar á Vestur-Jótlandi, og sóttum þar heim verkmenntaskóla, sem að sumu leyti er ekki ólíkur VMA. Við kynntum okkur starfið þar og hvað nemendur eru að læra og einnig fengum við að sitja nokkrar kennslustundir. Þá fórum við í heimsókn í einskonar íþrótta- og tómstundamiðstöð og sömuleiðis heimsóttum við félagsmiðstöð í Skjern fyrir ungt fólk. Miðað við ekki stærra samfélag kom það okkur skemmtilega á óvart hversu öflugt félagsstarfið er þarna,“ segir Guðmar Gísli Þrastarson, ritari stjórnar nemendafélagsins Þórdunu, sem var ásamt öðrum í stjórn Þórdunu í Danmörku í liðinni viku að kynna sér skóla- og félagsstarf í Skjern á Jótlandi. Ferðin var styrkt af Erasmus+ menntaáætlun ESB. Með nemendunum voru í ferðinni Sólveig Birna H. Elísabetardóttir viðburðastjóri VMA og María Sigurðardóttir stuðningsfulltrúi.
Fall flugfélagsins Play fyrir röskri viku setti töluvert strik í reikninginn hjá VMA-ferðalöngunum og breytti upphaflegri ferðaáætlun. Flogið var með Play til Billund á Jótlandi eins og lagt var upp með sunnudaginn 28. september og til stóð að fljúga með sama félagi heim viku síðar. Af því gat auðvitað ekki orðið því félagið hætti starfsemi 29. september sl. Því þurfti að leita annarra leiða og úr varð að VMA-ferðalangarnir flugu með þýska félaginu Lufthansa frá Billund sl. föstudag, 3. október, til Frankfurt þar sem var gist aðfaranótt sl. laugardags. Með Lufthansa kom hópurinn síðan frá Frankfurt til Keflavíkur sl. laugardag. Ferðin tók því óvænta stefnu en allir komu heilir heim.
Guðmar segir það hafa komið skemmtilega á óvart hversu vel væri búið að mörgum verknámsdeildum í framhaldsskólanum sem þau heimsóttu. Til dæmis hafi bifvélavirkjunin yfir að ráða risastórum sal þar sem pláss er fyrir marga bíla til verklegrar kennslu. Guðmar segist fúslega viðurkenna að danskan hafi svolítið vafist fyrir sér og öðrum í ferðinni, sérstaklega þegar hún hafi verið töluð af eðlilegum hraða. En engu að síður hafi upplifunin verið mjög skemmtileg, það hafi verið virkilega gaman að kynnast nemendum á sama reki í Skjern, fá upplýsingar um hvað þeir væru að gera í skólanum og utan skólans og segja þeim frá Íslandi og starfinu í VMA.
Í Skjern dvöldu VMA-nemendur frá sunnudegi til fimmtudags er þeir fóru til Billund. Til stóð að fljúga yfir til Frankfurt laugardaginn 4. október en það flug var fellt niður og því þurfti að flýta för um einn dag og fljúga þangað föstudaginn 3. október, sem fyrr segir. Guðmar segir að auðvitað hafi fall Play gert það að verkum að þau urðu skyndilega strandaglópar og það hafi verið óþægilegt og síðan hafi flugið verið fellt niður til Frankfurt. Við þessu hafi öllu þurft að bregðast og því hafi reynt mikið á Dagnýju, sem sér um alþjóðleg samskipti í VMA, að leysa úr þessu öllu saman. Ástæða sé til að hrósa henni sérstaklega fyrir að ná að leysa úr öllum þessum óvæntu ferðaflækjum.