Fara í efni

Stíft unnið í bifvélavirkjuninni til 19. maí

Nemendur í bifvélavirkjun í dag.
Nemendur í bifvélavirkjun í dag.

Sex nemendur stunda nám á síðustu önn í bifvélavirkjun og útskriftast í vor. Þeir komu aftur í skólann sl. mánudag og verða í verklegum tímum til 19. maí nk. Þessum sex nemendum er skipt upp í tvo þriggja manna hópa, annar þeirra er frá átta á morgnana til hádegis og seinni hópurinn kemur í hádeginu og er til fjögur á daginn.

Bragi Finnbogason brautarstjóri í bíliðngreinum segir að það hafi vissulega sett strik í reikninginn þegar hætta þurfti kennslu frá og með 16. mars sl., því þá átti eftir að fara yfir efni áfanga sem kennsluáætlunin gerði ráð fyrir að ljúka á síðustu vikum skólaársins. Við þessu hafi þurft að bregðast og hluti námsefnisins, sem átti að vera verklegur, hafi verið færður yfir í fjarnám.

Einn þessara áfanga snýr að vistvænum ökutækjum, þ.e. þau sem ganga fyrir öðru en jarðefnaeldsneyti. Þegar litið var inn í kennslustund í bifvélavirkjuninni í dag voru nemendur að kynna sér hvað til þurfi til þess að breyta bensínbíl í ökutæki sem nýtir metan sem orkugjafa.

Annar áfangi sem út af stóð þegar samkomubann skall á í mars lýtur að öryggisbúnaði bifreiða, m.a. loftpúðum, og segir Bragi að til þess að setja upp verklegar æfingar varðandi öryggismálin hafi hann fengið lánaðar bifreiðar. Verkstæðin á Akureyri hafa verið mjög liðleg með að útvega námsbrautinni bíla og það sama megi segja um Bílapartasöluna í Austurhlíð og fyrir þessi liðlegheit beri að þakka.

Bragi segir að tíminn verði nýttur eins vel og mögulegt sé til 19. maí til þess að unnt verði að komast yfir sem allra mest af því efni sem ætlunin hafi verið að kenna nemendum á önninni.