Fara í efni

Stendur vel undir væntingum

Anton Valbergsson.
Anton Valbergsson.

Það er með nám í húsasmíði eins og flestar námsbrautir sem nemendur velja sér að fyrst þarf að fara í gegnum ákveðinn grunn og síðan er byggt ofan á hann. Á fyrstu önninni í byggingadeild er farið í grunninn og það á við um alla sem ætla að halda áfram í byggingatengdum greinum -  húsasmíði, húsgagnasmíði, málaraiðn, múrsmíði, pípulagningum og dúkalögn. Í húsasmíðinni taka síðan við fjórar annir í faggreinum. 

Anton Valbjörnsson er einn þeirra nemenda sem hóf nám í grunndeild byggingagreina sl. haust og núna á vorönn er hann á sinni fyrstu af fjórum önnum þar sem faggreinarnar í húsasmíðinni eru í öndvegi, auk auðvitað kjarnagreinanna sem allir þurfa að taka.

Anton er Akureyringur og segir að þegar kom að því að velja nám í framhaldsskóla hafi hann strax horft til þess að fara í verknám, þar hafi áhuginn legið. Lengi hafi hann smíðað sér til ánægju og því hafi húsasmíðin orðið fyrir valinu. Gaman sé að sjá nýja hluti verða til og læra hvernig eigi að gera þá. Þegar litið var við í byggingadeildinni var Anton að vinna verkefni í áfanga þar sem áherslan er á að nemendur læri að vinna hluti í vélum. Kynningu á notkun vélanna, öryggismál og fleira fá nemendur á fyrstu önninni en síðan er á annarri önninni byggt ofan á það og nemendur læra að nota sér véltæknina. Anton var að gíma við að fræsa og fella tvær fjalir saman. Hér þarf að vanda til verka, stilla vélarnar upp á brot úr millimetra til þess að allt gangi upp. Anton segist kunna vel við námið og það standi fyllinga undir væntingum.

Auk þess að stunda nám í húsasmíði segist hann vinna með skólanum í Hagkaup á Akureyri, nokkra tíma seinnipart dags tvo daga í viku og um aðra hverja helgi. Þá segist hann stunda ræktina vel, fari þangað sex daga í viku og lyfti. Á því hafi hann byrjað sl. haust og nú sé orðinn ómissandi hluti í tilverunni að gefa sér tíma til þess að skjótast í ræktina.