Fara í efni

Stefnir á tonnið á næsta ári

Viktor Samúelsson.
Viktor Samúelsson.

Fyrir ári, í desember 2014, útskrifaðist Viktor Samúelsson af íþróttabraut VMA. Í hönd fór ævintýralegt ár í íþróttagrein hans, kraftlyftingum, og á dögunum var hann útnefndur kraftlyftingamaður ársins í karlaflokki af Kraftlyftingasambandi Íslands. Hann er sömuleiðis kraftlyftingamaður ársins í karlaflokki hjá Kraftlyftingafélagi Akureyrar og íþróttamaður ársins hjá félaginu. Hann verður því í kjöri til Íþróttamanns Akureyrar fyrir árið 2015, eins og í fyrra, en þá lenti hann í öðru sæti í kjörinu. Afrek Viktors á árinu eru ótvíræð og þegar upp er staðið er hann stigahæsti kraftlyftingamaður landsins á árinu.

Hér á heimasíðu VMA fylgjumst við vel með því hvernig gömlum nemendum skólans vegnar í lífi og starfi. Íþróttaferill Viktors Samúelssonar er eftirtektarverður. Á meðan hann var í VMA var hann strax farinn að vekja mikla athygli í sinni íþrótt, kraftlyftingunum, og hann hefur heldur betur bætt sig á árinu. Viktor, sem er fæddur 1993, sigraði í öllum mótum sem hann tók þátt í hér á landi á þessu ári. Hann vann til verðlauna á Evrópumeistaramóti og heimsmeistaramóti ungmenna (23ja ára og yngri) og setti Norðurlandamet ungmenna á árinu. Þá setti hann á árinu fjölmörg Íslandsmet í opnum flokki og flokki ungmenna. Svona lítur afrekaskrá Viktors út á árinu 2015:

Heimsmeistaramót ungmenna -120,0 kg flokki: 3. sæti og bronsverðlaun samanlagt.
Heimsmeistaramót ungmenna -120,0 kg flokki: 3. sæti og bronsverðlaun í bekkpressu.
Evrópumót ungmenna -120,0 kg flokki: 2. sæti og silfurverðlaun í bekkpressu.
Íslandsmótið í kraftlyftingum: Íslandsmeistari í -120 kg flokki og stigahæstur í karlaflokki.
Íslandsmótið í klassískum kraftlyftingum: Íslandsmeistari í -120 kg flokki og stigahæstur í karlaflokk.
Íslandsmótið í bekkpressu: Íslandsmeistari í -120 kg flokki og stigahæstur í karlaflokki.
Íslandsmótið í réttstöðulyftu: Íslandsmeistari í -120 kg flokki og stigahæstur í karlaflokki.
Bikarmót KRAFT: Bikarmeistari í karlaflokki.
Norðurlandamet samanlagt í -120 kg flokki ungmenna.
Íslandsmet samanlagt í -120 kg opnum flokki.
Íslandsmet í bekkpressu í -120 kg opnum flokki.
Íslandsmet samanlagt og í öllum greinum í klassískum kraftlyftingum -120 kg opnum flokki.

Frá því að Viktor lauk námi í VMA fyrir ári hefur hann einbeitt sér enn frekar að sinni íþróttagrein auk þess sem námið á íþróttabraut hefur nýst honum vel til að þjálfa yngri iðkendur í Kraftlyftingafélagi Akureyrar (KFA). Auk þjálfunarinnar vinnur hann fyrir KFA sem felst m.a. í því að hafa yfirumsjón með aðstöðu félagsins í kjallara Sunnuhlíðar. Óhætt er að segja að sprenging hafi orðið í starfsemi félagsins á síðustu misserum og nú er svo komið að það er stærsta kraftlyftingafélag landsins. Viktor segist halda að stórum hluta til í húsnæði félagsins. Hann æfir níu sinnum í viku en tekur sér frí frá lyftingunum á sunnudögum. Fyrst og fremst segir hann að það „sé mikilvægt fyrir hausinn“.

Framundan er árið 2016 og sleppi Viktor við meiðsli, sem hann vonast auðvitað eftir, hefur hann væntingar til þess að það verði jafnvel enn betra á sínum ferli en þetta ár. Meðal annars eru á mótalistanum heimsmeistaramót og Evrópumeistaramót ungmenna og þar ætlar Viktor sér stóra hluti. Hann telur raunhæft, verði hann heppinn og allt gangi upp, að ná heimsmeistaratitli. Hann væntir þess að ná því takmarki á næsta ári að lyfta samanlagt meira en einu tonni, þ.e. í réttstöðulyftu, bekkpressu og hnébeygju. Besti árangur Viktors er 970 kg í samanlögðu, þar af 350 kg í hnébeygju, 300 kg í bekkpressu og 320 kg í réttstöðulyftu.

Viktor keppir í svokölluðum -120 kg flokki, sem er fyrir þá kraftlyftingamenn sem eru að líkamsþyngd á milli 105 og 120 kg. Viktor segist hafa smám saman verið að þyngjast og styrkjast, sem þýðir jafnframt að hann taki meiri þyngdir en áður. Þessir miklu líkamsburðir og stífar æfingar kalla að vonum á mikinn mat og ófáar hitaeiningar. Viktor segist að jafnaði borða sjö sinnum á dag. Hann segir að jólin séu sér ekki erfið hvað mataræði varðar, hann fái sér duglega af hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld, eins og hver annar, og geri sér þannig glaðan dag. En smákökur og óhollari fæða af öðrum toga er ekki ofarlega á listanum. Viktor segir lykilatriði, ásamt stífum og markvissum æfingum, að borða hollan og staðgóðan mat. Þjálfari hans er Grétar Skúli Gunnarsson, sem jafnframt er formaður Kraftlyftingafélags Akureyrar.