Fara í efni

Starfsbraut fær góðar gjafir

Spjaldtölvur nýtast vel í kennslu á starfsbraut.
Spjaldtölvur nýtast vel í kennslu á starfsbraut.
Sjö félagasamtök hafa styrkt starfsbraut VMA til kaupa á spjaldtölvum til notkunar í kennslu við brautina og hafa nú þegar verið keyptar fjórar Ipad spjaldtölvur og nauðsynlegir fylgihlutir og er ætlunin að kaupa fleiri slíkar.

Sjö félagasamtök hafa styrkt starfsbraut VMA til kaupa á spjaldtölvum til notkunar í kennslu við brautina og hafa nú þegar verið keyptar fjórar Ipad spjaldtölvur og nauðsynlegir fylgihlutir og er ætlunin að kaupa fleiri slíkar.

Þau félagasamtök sem um ræðir eru Kvenfélagið Aldan-Voröld, Kvenfélagið Baldursbrá, Kvenfélag Hríseyjar, Kvenfélagið Iðunn, Lionsklúbbur Akureyrar, Lionsklúbburinn Ösp og Soroptimistaklúbbur Akureyrar.

„Við viljum þakka þessum félagasamtökum af heilum hug fyrir þennan góða stuðning. Þetta skiptir okkur öll, nemendur og kennara, miklu máli. Spjaldtölvurnar hafa nú þegar sannað gildi sitt og nýtast vel í kennslu í bæði minni og stærri hópum,“ segir Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir, kennslustjóri starfsbrautar. Inga Dís Árnadóttir, kennari á starfsbraut, tekur undir þetta og segir tölvurnar m.a. nýtast vel í íslensku, ensku og stærðfræði. Möguleikarnir séu miklir og í raun óendanlegir og víst megi telja að spjaldtölvur verði í auknum mæli nýttar sem hjálpartæki við kennslu í framtíðinni.

Að sögn Ragnheiðar stunda nú 68 nemendur nám við starfsbraut VMA, sem er fjölgun um 20 nemendur frá síðasta skólaári. Nemendur fá einstaklingsmiðað nám við hæfi og með fjölbreyttum kennsluháttum sniðnum að þörfum nemenda og getu þroska þeir með sér hæfni sem gerir þeim fært að takast á við fjölbreytt viðfangsefni daglegs lífs á heimili, í vinnu, tómstundum og námi.

Á meðfylgjandi mynd eru þrír nemendur á starfsbraut að nýta sér spjaldtölvur í kennslustund: Júlíus Birkir Magnússon (næst á myndinni), Kristján Jónsson og Steinunn María Þorgeirsdóttir.