Fara í efni

Stál- og blikksmíðanemar kynntu námsverkefni sín

Einn nemendanna kynnir smíðaverkefni sitt.
Einn nemendanna kynnir smíðaverkefni sitt.

Það er uppskerutími, enda líður að lokum vorannar, sem vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar hefur án nokkurs vafa verið sú óvenjulegasta í sögu VMA. Eins og fram hefur komið hafa útskriftarnemar í verknámi sótt tíma í VMA frá 4. mai sl. og þeir hafa unnið stíft til þess að ljúka öllum námsverkefnum.

Í gær luku nemendur í stál- og blikksmíði náminu í VMA þegar þeir sýndu og kynntu smíðaverkefni sín á bílaplaninu norðan við málmsmíðadeildina.

Annars vegar kynntu nemendur sameiginlegt smíðaverkefni sem eru tvær glæsilegar kerrur. Önnur þeirra, sú breiðari, var smíðuð fyrir Blikk- og tækniþjónustuna á Akureyri og fulltrúi kaupanda var að sjálfsögðu mættur á staðinn til þess að veita kerrunni viðtöku - og var hæstánægður með útkomuna. Hin kerran er til sölu. Fyrstur kemur, fyrstur fær og verður ekki svikinn af þessari vel smíðuðu gæðakerru. Áhugasamir hafi samband við Hörð Óskarsson, brautarstjóra málmiðngreina.

Hins vegar kynntu nemendur sína eigin smíðagripi sem þeir hafa smíðað í náminu. Fjölbreytnin er í fyrirrúmi eins og þessar myndir bera með sér - kerra, lyftingabúnaður, skápur, róla, búnaður til jafnvægisæfinga á mótorhjóli, svo nokkur dæmi séu nefnd. Sjón er sögu ríkari.