Fara í efni

Spenntur fyrir verkefninu

Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri VMA.
Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri VMA.
Pétur Guðjónsson hefur tekið til starfa sem viðburðastjóri við VMA og mun hann vinna náið með nemendaráði Þórdunu að félagslífinu við skólann. Hann segist spenntur að takast á við þetta verkefni og sér ýmis sóknarfæri.

Pétur Guðjónsson hefur tekið til starfa sem viðburðastjóri við VMA og mun hann vinna náið með nemendaráði Þórdunu að félagslífinu við skólann.  Hann segist spenntur að takast á við þetta verkefni og sér ýmis sóknarfæri.

Pétur segist á sínum tíma, fyrir tuttugu árum eða svo, hafa verið nemandi á matvælabraut VMA og því þekki hann eilítið til skólans. En nú kemur hann að skólanum úr allt annarri átt; verkefnið verður að styðja við og efla félagslífið í skólanum. Í gegnum tíðina hefur Pétur komið að ótal uppákomum og hátíðum á Akureyri – auk þess að hafa starfað um árabil sem fjölmiðlamaður. Og oftar en ekki hefur hann starfað með ungu fólki og segist kunna því vel. Og nú er Pétur kominn til starfa sem viðburðastjóri í VMA og segist afar spenntur fyrir verkefninu og sjái strax ýmis sóknarfæri þó farsælast sé að láta verkin tala og vera ekki með stórar yfirlýsingar í byrjun. En hann getur þess að leiklistin sé honum óneitanlega hugleikin, enda hefur hann ásamt Jokku – Jóhönnu Guðnýju Birnudóttur – samið og leikstýrt leikverkum sem hafa fengið góðar viðtökur. Reyndar leikstýrðu þau saman uppsetningu Yggdrasils – Leikfélags VMA - á Tjaldinu eftir Hallgrím Helgason í apríl 2013. Og Pétur upplýsir að hann hafi mikinn áhuga að skrifa ásamt Jokku nýtt styttri leikverk sem nemendur í VMA fái að spreyta sig á að setja upp í vetur, jafnvel fyrir áramót.

En fyrsta verkefni Péturs verður að halda utan um nýnemahátíðina sem verður fimmtudaginn 4. september nk. og lýkur með balli í Gryfjunni um kvöldið. Pétur segist fyrst og fremst vilja nýta krafta nemenda í skólanum í dagskráratriði á nýnemahátíðinni en allt kemur þetta betur í ljós þegar nær dregur.