Fara í efni

Spennt að takast á við þetta nýja starf

Anna Margrét Hrólfsdóttir, skólasálfræðingur VMA.
Anna Margrét Hrólfsdóttir, skólasálfræðingur VMA.

Anna Margrét Hrólfsdóttir hefur verið ráðin í stöðu sálfræðings við VMA og tekur hún við starfinu af Jóhönnu Bergsdóttur sem hefur gegnt því undanfarin ár.

Anna Margrét er 29 ára gömul og fædd og uppalin á Akureyri. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2012 gerði Anna Margrét eins árs hlé á námi en fór að því loknu í Háskólann í Reykjavík í BS nám í sálfræði sem hún lauk árið 2017. Þá lá leiðin á Landspítalann þar sem Anna Margrét var í eitt ár í ýmsum rannsóknastörfum. Síðan fór hún í meistaranám í HÍ í klínískri sálfræði fullorðinna. Náminu lauk Anna Margrét árið 2019 og fór þá að starfa sem sálfræðingur á Landspítalanum. Í því starfi var hún þar til hún fór í fæðingarorlof og eignaðist dóttur, sem nú er rúmlega eins árs. Eiginmaður Önnu Margrétar er Björgvin Valdimarsson, sem einnig er Akureyringur og lærði vélstjórn og rafvirkjun á sínum tíma í VMA. Björgvin hefur og mun áfram starfa sem sérfræðingur í skiparafmagni hjá Héðni hf. í Reykjavík.

„Ég er mjög spennt að takast á við þetta nýja starf hér í VMA, enda hef ég haft áhuga á því að vinna með ungu fólki. Þetta er mikilvægur aldur upp á andlega heilsu að gera og mér finnst hafa mikið forvarnagildi að starfa sem sálfræðingur í framhaldsskóla, ekki síst á Covid-tímum. Ég er í um 75% stöðu við skólann og er hér með viðveru alla mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga og á fimmtudögum er ég hér með viðveru til kl. 14. Á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum eru opnir tímar milli kl. 11:00 og 11:30 og á miðvikudögum kl. 09:00 til 09:30 og þá geta nemendur kíkt við hjá mér, án þess að hafa áður bókað tíma. En að öðru leyti geta nemendur pantað tíma og þá hafa þeir fyrst samband við námsráðgjafa skólans sem síðan vísa þeim áfram til mín,“ segir Anna Margrét.

„Á árum mínum í MA hafði ég strax ákveðið að verða sálfræðingur. Ég var þar í félagsvísindadeild og tók alla þá sálfræðiáfanga sem í boði voru. Ég hef lengi haft áhuga á fólki og hef haft löngun til þess að hjálpa því á ýmsan hátt. Það ýtti undir áhugann á sálfræði auk þess sem frænka mín er prófessor í sálfræði og til hennar horfði ég. Mér finnst klínísk sálfræði áhugaverð en ekki síður vekja sálfræðirannsóknir áhuga. Í framtíðinni horfi ég til þess að starfa á báðum sviðum,“ segir Anna Margrét Hrólfsdóttir.