Fara í efni

Söngkeppni VMA: Fjórtán lög skráð til þátttöku

Fjórtán lög hafa verið skráð til þátttöku í Söngkeppni VMA sem verður haldin í Gryfjunni nk. fimmtudagskvöld, 20. febrúar. Sigurvegari í keppninni verður fulltrúi VMA í árlegri Söngkeppni framhaldsskólanna.

Fjórtán lög hafa verið skráð til þátttöku í Söngkeppni VMA sem verður haldin í Gryfjunni nk. fimmtudagskvöld, 20. febrúar. Sigurvegari í keppninni verður fulltrúi VMA í árlegri Söngkeppni framhaldsskólanna.

Það er í mörg horn að líta fyrir þá sem halda utan um félagslífið í VMA. Fyrir röskri viku var haldin glæsileg árshátíð VMA og strax í þessari viku er komið að næsta stórviðburði í félagslífinu, sem er Söngkeppni VMA. Að vanda verður í engu til sparað að gera keppnina sem glæsilegasta, því hún er tvímælalaust einn af hápunktunum í félagslífinu á ári hverju. Óhætt er að segja að keppnin á sl. ári hafi verið afar glæsileg og verkefnið í ár verður að toppa hana. Í fyrra stóð Bjarkey Sif Sveinsdóttir uppi sem sigurvegari í keppninni og hún keppti síðan fyrir hönd VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna, þar sem hún stóð sig með mikilli prýði og komst í úrslit.
En nú er það stóra spurningin; hver verður fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna sem verður haldin á Akureyri í apríl nk.? Sem fyrr segir hafa fjórtán lög verið skráð til keppni í Söngkeppni VMA 2014, sem er svipuð þátttaka og á síðasta ári.

Á skóladagatali VMA er Söngkeppni VMA skráð viku síðar, 27. febrúar, en af ýmsum ástæðum var hún færð fram um viku. Nú er bara að taka næsta fimmtudagskvöld frá og fjölmenna í Gryfjuna. Það verður enginn svikinn af því.