Fara í efni

Sóley Margrét sjúkraliðanemi heimsmeistari í kraftlyftingum

Heimsmeistarinn Sóley Margrét Jónsdóttir.
Heimsmeistarinn Sóley Margrét Jónsdóttir.

Það er ekki ofsögum sagt að Sóley Margrét Jónsdóttir, sem er á þriðja ári í sjúkraliðanámi sínu í VMA, er gríðarlega sterk. Hún hefur æft kraftlyftingar í nokkur ár hjá Kraftlyftingafélagi Akureyrar og hefur þrívegis hampað Evrópumeistaratitli en hún bætti um betur á heimsmeistaramóti unglinga í Saskatchewan í Regina í Kanada sem lauk fyrir helgina og hampaði heimsmeistaratitlinum á sínu fyrsta heimsmeistaramóti í +84kg flokki stúlkna (14-18 ára).

Í hnébeygju lyfti Sóley Margrét 255 kg, 25 kg meira en sú sem varð í öðru sæti. Í bekkpressunni lyfti hún 160 kg og vann þar einnig til gullverðlauna og setti um leið Íslandsmet. Í réttstöðulyftunni lyfti Sóley Margrét 207,5 kg og vann þriðja gullið. Samanlagt lyfti hún því 622,5 kg og fjórða gullið og þar með heimsmeistaratitillinn var í höfn.

Það segir sína sögu um magnaðan árangur Sóleyjar að þessi samanlagða þyngd var meiri en stúlkan sem sigraði næsta aldursflokk fyrir ofan (19-23 ára) lyfti. Hún á heimsmetið í sínum aldursflokki í hnébeygju, setti það á Evrópumeistaramótinu í maí sl., en í Regina reyndi hún í tvígang við nýtt heimsmet í hnébeygju í U-18 og U-23 en fékk lyfturnar ekki dæmdar gildar. Aðeins herslumuninn vantaði upp á en ljóst er að það er bara tímaspursmál hvenær hún setur nýtt heimsmet.

Grétar Skúli Gunnarsson hefur þjálfað Sóleyju Margréti síðan hún byrjaði að æfa kraftlyftingar. Hann sagði að heimsmeistaratitilinn hafi ekki komið sér á óvart, enda væri Sóley Margrét þrefaldur Evrópumeistari unglinga og öllum ljóst hvað hún gæti afrekað á góðum degi. „Við vorum að gæla við að hún myndi slá heimsmetið í samanlögðu en það tókst ekki að þessu sinni. Hefði hún fengið viðurkenndar lyfturnar í hnébeygjunni hefði hún slegið heimsmetið. En hún hefur möguleika á að slá metið í sínum aldursflokki á HM í opnum flokki fullorðinna í nóvember nk. í Dubai,“ segir Grétar Skúli.

Sem fyrr segir er Sóley Margrét þrefaldur Evrópumeistari, sömuleiðis þrefaldur Norðurlandameistari og nú heimsmeistari. Hún varð átján ára á þessu ári og er því út þetta ár í þessum aldursflokki. Grétar Skúli segir að hún hafi lyft um 150 kílóum meira í sínum aldursflokki en sú sem varð í öðru sæti og engin hafi lyft meira í samanlögðu í U-23, 19-23 ára aldursflokknum. „Það er engin spurning í mínum huga að Sóley á heilmikið inni og hún mun að mínu mati ekki toppa fyrr en eftir sex til sjö ár,“ segir Grétar Skúli.

Það er rík hefð fyrir kraftlyftingum á Akureyri og árangur Kraftlyftingafélags Akureyrar er mjög athyglisverður. Grétar Skúli var með fimm keppendur frá félaginu á heimsmeistaramótinu og kemur hópurinn til landsins í fyrramálið.

VMA óskar Sóleyju Margréti innilega til hamingju með heimsmeistaratitilinn.