Fara í efni

Snæþór Ingi og Rebekka Ýr sigruðu Söngkeppni VMA

Snæþór Ingi og Rebekka Ýr að keppninni lokinni.
Snæþór Ingi og Rebekka Ýr að keppninni lokinni.
Það var rífandi stemning í Gryfjunni í gærkvöld þar sem fram fór hin árlega Söngkeppni VMA. Dómnefndinni var að vonum vandi á höndum en niðurstaða hennar var sú að Snæþór Ingi Jósepsson og Rebekka Ýr Sigurþórsdóttir sigruðu að þessu sinni með lagi sem þau settu saman úr hinu þekkta danska Eurovison-lagi Rollo & King „Never ever let you go“ og „You‘re the one that I want“, sem Olivia Newton John og John Travolta gerðu ódauðlegt í kvikmyndinni Grease.

Það var rífandi stemning í Gryfjunni í gærkvöld þar sem fram fór hin árlega Söngkeppni VMA. Dómnefndinni var að vonum vandi á höndum en niðurstaða hennar var sú að Snæþór Ingi Jósepssoin og Rebekka Ýr Sigurþórsdóttir sigruðu að þessu sinni með lagi sem þau settu saman úr hinu þekkta danska Eurovison-lagi Rollo & King „Never ever let you go“ og „You‘re the one that I want“, sem Olivia Newton John og John Travolta gerðu ódauðlegt í kvikmyndinni Grease.

Í öðru sæti var Ásgeir Högnason og í því þriðja lenti Þórdís Alda Ólafsdóttir, sem jafnframt fékk viðurkenningu fyrir bestu sviðsframkomu. Með sigrinum í gærkvöld tryggðu þau Snæþór Ingi og Rebekka Ýr sér þátttöku í Söngkeppni framhaldsskólanna í apríl nk. fyrir hönd VMA.

Það var vel mætt í Gryfjuna í gærkvöld og stemningin var ósvikin enda mörg frambærileg atriði á boðstólum og ljóst að margir tónelskir og hæfileikaríkir nemendur eru í VMA. Niðurstöðu dómnefndar var beðið með eftirvæntingu og þegar hún var ljós fluttu sigurvegararnir sigurlagið á nýjan leik. Einfaldleikinn í flutningnum var allsráðandi, Snæþór Ingi spilaði undir á kassagítar og þau sungu bæði.  Eða eins og Þórdís Alda orðaði það; „stundum sigrar einfaldleikinn“.
Þau voru sammála um það að sigurinn hafi komið þeim skemmtilega á óvart. „Já, eiginlega. Við vorum að gæla við það að ná kannski þriðja sæti. En þetta var gaman. Eiginlega er þetta í fyrsta skipti sem við syngjum saman. Við höfðum velt því fyrir okkur að taka þátt sitt í hvoru lagi en síðan ákváðum við að gera þetta saman,“ segja þau Snæþór Ingi og Rebekka Ýr, en þau eru hreint ekki óvön að starfa saman því þau hafa verið par frá 2012. Snæþór Ingi er Eskfirðingur en Rebekka Ýr Reykvíkingur en ættuð frá Eskifirði. Snæþór er í námi í bifvélavirkjun en Rebekka Ýr í sjúkraliðanámi.