Fara í efni

Smíða tvær öflugar kerrur

Kristján kennari og nemendur í þungum þönkum.
Kristján kennari og nemendur í þungum þönkum.

Undir lok náms í stál- og blikksmíði smíða nemendur voldugar kerrur sem síðan eru seldar áhugasömum. Þessa dagana er að koma mynd á tvær kerrur sem nemendur hafa verið að smíða síðan í annarbyrjun. Þegar litið var inn í kennslustund hjá Kristjáni Kristinssyni kennara voru nemendur að bjástra í rafleiðslum í kerrunum og sníða botnplötur. Smíðatímar eru tvisvar í viku, fjóra tíma í senn. Þegar kerrusmíðinni lýkur munu nemendur smíða sér ferðagrill. Þeir verða því tilbúnir fyrir grillvertíðina í sumar.

Kristján kennari segir það hafa verið fastan lið í mörg undanfarin ár að nemendur smíði kerrur undir lok námstímans, kerrusmíðin sé gott og lærdómsríkt verkefni. Þessir tólf nemendur, þar af tíu í stálsmíði og tveir í blikksmíði, eru að ljúka náminu í vor. Sumir hafa þegar lokið samningstíma sínum og eru tilbúnir í sveinspróf. Þrír af stálsmíðanemunum munu þreyta sveinspróf í vor og báðir blikksmíðanemarnir. Allir hafa nemendurnir unnið hjá málmiðfyrirtækjum á Akureyri og Húsavík og hafa þeir þegar safnað drjúgt mikilli reynslu í sarpinn til þess að smíða kerrurnar.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þessar kerrur, þær eru afar öflugar. Stærð þeirra er 3 x 1,5 metrar og eru þær smíðaðar úr prófíljárni sem var zinkhúðað hjá FerroZink á Akureyri.