Fara í efni

Smíða þrjár kerrur - boðnar til sölu

Kerrurnar eru þessa dagana að taka á sig mynd.
Kerrurnar eru þessa dagana að taka á sig mynd.

Síðari hluta vorannar hafa stálsmíðanemendur unnið hörðum höndum að því að smíða þrjár voldugar kerrur og nú er komin mynd á gripina, enda skammt til skólaloka. Um er að ræða þrjár kerrur sem allar eru 1,25 m x 2 m og eru kerrurnar boðnar til sölu þegar smíði þeirra er lokið innan fárra daga.

Slík kerrusmíði hefur verið fastur liður nemenda sem lengra eru komnir á málmiðnaðarbraut VMA. Að þessu sinni eru ellefu nemendur í stálsmíði sem sjá um smíðina og skipa þeir sér niður í þrjá hópa sem hver smíðar eina kerru, fjórir í tveimur hópanna og þrír í einum.

Kristján Kristinsson kennari segir að þessi smíði sé nemendum afar mikilvæg þjálfun. Þetta sé raunhæft verkefni sem nemendur fái að glíma við frá upphafi til enda. Á verkstæði eða í smiðju sé það oft svo að viðskiptavinir komi með „riss“ af smíði sem þeir vilji fá og síðan sé það fagmannanna að hanna, útfæra og smíða. Það sama eigi við hér. Ekki hafi verið fylgt nákvæmum teikningum, heldur hafi verið farið eftir „rissi“ í upphafi og síðan hafi nemendur velt vöngum yfir hvernig smíðinni væri best hagað. „Nemendur læra mikið af þessu og það reynir verulega á þeirra útsjónarsemi og fagmennsku,“ segir Kristján.

Útkoman er þrjár öflugar kerrur sem nú eru á lokametrunum. Í gær voru nemendur m.a. að ganga frá hjólabúnaðinum – undir kerrunum eru fjórtán tommu dekk - og þá er eftir að ganga frá ljósum, hliðum, gafli o.fl. Í hliðunum er vatnsheldur krossviður. Kerrurnar eru afar voldugar, grindin er smíðuð úr heitgalvaníseruðu prófíljárni. Og hér er ekki kastað til höndunum, svo mikið er víst. Hér hefur sannarlega verið vandað til verka.

Síðast þegar kerrur voru smíðaðar á málmiðnaðarbrautinni voru þær eilítið stærri en ákveðið var að hafa þær nettari í ár. Kristján segir að þetta séu afbragðs góðar fólksbíla- og jepplingakerrur. Og þær eru boðnar til sölu og eins og oft áður gildir hér hið forkveðna - fyrstir koma, fyrstir fá. Áhugasömum er bent á að hafa samband við kennarana á málmiðnaðarbrautinni.