Fara í efni

Slagverksleikari sem stefnir á lækninn

Almar Smári Óskarsson.
Almar Smári Óskarsson.

Bókasafn VMA er góður staður til þess að setjast niður og læra, afla sér upplýsinga um hitt og þetta sem að góðum notum geta komið í náminu eða lesa sögubók. Og það síðastnefnda var einmitt það sem Almar Smári Óskarsson var að gera þegar litið var inn á bókasafnið. Heimsbókmenntir síðari ára urðu fyrir valinu, sjálfur Harry Potter.

Almar Smári er á náttúrfræðibraut VMA. Hann er Akureyringur og hóf nám í VMA sl. haust. Hafði farið í MA eftir grunnskóla en skipti um skóla sl. haust og færði sig upp á Eyrarlandsholtið.  Hann segist kunna vel við námið og margt þar veki áhuga hans. Hann nefnir t.d. ensku, íslensku (goðafræði) og efnafræði. Segir enga tilviljun að náttúrufræðibraut hafi orðið fyrir valinu því hann hafi lengi horft til þess að fara í læknisfræði að loknum framhaldsskóla. Ennþá sé stefnan sett á lækninn, þar til annað komi í ljós. „Mér finnst heillandi að geta hjálpað fólki,“ segir Almar Smári.

Utan skóla er nóg að gera hjá Almari Smára því samhliða námi í VMA stundar hann tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri og er þar að læra á slagverk. Hefur raunar gert það undanfarin átta ár. Hins vegar er lítið um kennslustundir í Tónlistarskólanum þessa dagana vegna verkfalls tónlistarkennara. Slagverksnám fellst ekki bara í læra að spila á trommur, innan þess rúmast allskyns ásláttarhljóðfæri.

Almar Smári segir að vissulega taki tónlistarnámið mikinn tíma og ef vel eigi að vera þurfi hann að æfa sig á hverjum degi, til viðbótar við sjálfar kennslustundirnar í Tónlistarskólanum. En til þess að koma námi í tveimur skólum heim og saman þarf að skipuleggja tímann vel og segir Almar Smári að það hafi gengið alveg ágætlega.