Fara í efni

Skyggnst inn í heim súkkulaðisins

Reynir Grétarsson ræðir um heim súkkulaðsins.
Reynir Grétarsson ræðir um heim súkkulaðsins.

Í dag var Reynir Grétarsson, matreiðslumeistari og veitingamaður á Lyst í Lystigarðinum á Akureyri, með fyrirlestur um súkkulaðigerð í VMA fyrir nemendur í 3. bekk í matreiðslu og 2. bekk í framreiðslu, sem stunda nú nám í VMA.

Reynir er Akureyringur og lærði matreiðslu á Strikinu á Akureyri. Náminu lauk hann árið 2012 og tók síðan meistararéttindin í framhaldinu. Á árunum 2013-2015 bjó Reynir í Malmö í Svíþjóð og starfaði þar á veitingastaðnum Bloom in the Park. Á þeim tíma sem Reynir starfaði þar fékk staðurinn Michelin stjörnu. Frá Malmö lá leiðin aftur til Íslands og fór Reynir að starfa sem framleiðslustjóri hjá fyrirtækinu Omnom, sem er eina súkkulaðigerðin á Íslandi sem sérhæfir sig í framleiðslu á svokölluðu ,,baun í bita” (e. from bean to bar) súkkulaði. Omnon var stofnað árið 2013 og hefur vaxið og dafnað á þeim tæpa áratug sem fyrirtækið hefur starfað. Fyrr á þessu ári flutti Reynir síðan aftur í heimahagana og hóf rekstur á veitingastaðnum Lyst í Lystigarðinum á Akureyri. Þar býður hann m.a. upp á fjölbreytta flóru súkkulaðis.

Reynir miðlaði yfirgripsmikilli þekkingu sinni á súkkulaði til nemenda í matreiðslu og framreiðslu í afar áhugaverðum fyrirlestri í VMA í dag. Af orðum Reynis má ljóst vera að súkkulaðigerð er mjög heillandi vísindi og um margt svipar henni til víngerðar. Kakóbaunirnar sem súkkulaðið er búið til úr eru lykilinn að margbreytileika í heimi súkkulaðsins og möguleikarnir í útfærslu eru óendanlega margir. Svo mikið er víst að súkkulaði er hreint ekki sama og súkkulaði!

Reynir var með átta mismunandi tegundir af súkkulaði úr smiðju Omnon, sem nemendur fengu að gæða sér á og einnig bauð hann upp á bragðprufu úr eigin framleiðslu í Lyst.