Fara í efni

Tölvuleikjaheimurinn skoðaður

Tölvuleikjaheimurinn er gríðarlega umfangsmikill.
Tölvuleikjaheimurinn er gríðarlega umfangsmikill.

Heimur tölvuleikjanna hefur farið hratt stækkandi á undanförnum árum og vöxturinn heldur áfram út um allan heim. Hér á Íslandi hafa sprottið upp ýmis nýsköpunarfyrirtæki sem hafa þróað heimsfræga tölvuleiki og nægir þar að nefna CCP – þar sem þekktasti leikurinn er Eve Online.

Á starfsbraut VMA er á þessari önn boðið upp á nýjan áfanga, Upplýsingatækni með áherslu á tölvuleikjafræði, sem Hafdís Björg Bjarnadóttir og Urður María Sigurðardóttir hafa umsjón með. Hér eru myndir sem Hafdís Björg tók í kennslustund á dögunum.

Hafdís Björg segir þetta áhugavert efni til þess að fjalla um, nemendur þekki þennan heim vel og sýni efninu mikinn áhuga.

Í áfanganum fá nemendur innsýn í tölvuleikjaheiminn frá ýmsum hliðum. Saga hans er rakin undanfarna áratugi og hvernig leikirnir hafa breyst í tímans rás í takt við hraða þróun tölvutækninnar. „Við leggjum mikla áherslu á að nemendur tileinki sér gagnrýna hugsun varðandi tölvuleikina og velti vöngum yfir kostum þeirra og göllum," segir Hafdís Björg.

Nemendur vinna kynningar um valin viðfangsefni og vinna síðan lokaverkefni að eigin vali um ýmislegt er lýtur að tölvuleikjaheiminum.