Fara í efni

Skrítinn vetur

Anna Kristjana Helgadóttir, formaður Þórdunu.
Anna Kristjana Helgadóttir, formaður Þórdunu.

Félagslífið í VMA hefur verið með öðrum hætti í vetur en venjan er. Ástæðan er einföld; kórónuveirufaraldurinn. Það er fyrst núna eftir áramótin sem skólahald er með nokkuð eðlilegum hætti en eftir sem áður setja sóttvarnareglur samkomuhaldi skorður og því getur Þórduna – nemendafélag skólans – ekki efnt til viðburða í skólanum.

Anna Kristjana Helgadóttir, formaður Þórdunu, segir að þessi vetur hafi vissulega verið mjög skrítinn en fátt sé við þessu að gera. Mikilvægt sé, þrátt fyrir allt, að horfa til þess að í næstu viku verði frumsýning á söngleiknum Grís í Gryfjunni. Stór hópur nemenda hafi lagt nótt við dag við undirbúning sýningarinnar en sú vinna hafi ekki alltaf verið auðveld vegna sóttvarna. En með mikilli þrautseigja og elju hafi leikhópurinn og allir sem að sýningunni koma ekki látið deigan síga og nú styttist í afraksturinn. Gleðiefni sé að mega sýna verkið í Gryfjunni, þar sé smám saman að verða til leikhús.

Anna Kristjana segir að til hafi staðið að vera með Sturtuhausinn – söngkeppni VMA í janúar en ákveðið hafi verið að fresta keppninni fram í mars. Þessa dagana sé Gryfjan frátekin fyrir sýninguna á Grís og svo verði á meðan á þeim stendur. Anna segir að ekkert komi í veg fyrir að Sturtuhausinn verði haldinn, með eða án áhorfenda, og einnig verði keppninni streymt, eins og á síðasta ári. Og hún bindur vonir við að unnt verði að halda árshátíð nemenda skólans með einhverjum hætti í apríl. Ekkert sé þó hægt að ákveða í þeim efnum að svo komnu máli.

Þrátt fyrir að stjórn Þórdunu geti lítið aðhafst við að vinna að ýmsum viðburðum í félagslífi nemenda situr stjórnarfólk þó síður en svo aðgerðalaust. Sex stjórnarmenn koma við sögu við uppfærsluna á Grís; fjórir leika í sýningunni, Tumi Snær Sigurðsson eignastjóri smíðar leikmynd og Anna Kristjana heldur um alla þræði við vinnslu leikskrár sýningarinnar.

En eitt hefur þó orðið til í félagslífi nemenda núna á kórónutímum - Rafíþróttaklúbbur Þórdunu. Þessi félagsskapur var sem sagt nýverið settur á stofn. Rafíþróttir eru um það bil það eina sem hefur haldið sínu striki í kórónuveirufaraldrinum - og raunar sótt í sig veðrið. Anna Kristjana segir vonir standa til þess að þessi nýi rafíþróttaklúbbur eigi sína fulltrúa á framhaldsskólamóti í rafíþróttum sem til standi að halda í næsta mánuði.